11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (4005)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherrum þær upplýsingar, sem þeir hafa gefið, og vona, að ég fái tækifæri til að kynna mér þær nánar. Hæstv. fjmrh. viðurkenndi, að hæstv. ríkisstj. hefði enga lagaheimild haft til ráðstafana þeirra, sem fyrirspurn mín fjallaði um, en hann sagði, að Alþ. hefði gert ráðstafanir og samþykktir, sem neytt hefðu ríkisstj. til þessa. Þá sagði hann, að ríkissjóður væri að vísu formlegur eigandi togaranna. Samkvæmt þessu skilst mér, að þeir hafi ekki enn verið seldir, ef ríkið er eigandi þeirra, og bráðabirgðalán öll eiga að greiðast upp, þegar skipin eru seld. En ef togararnir eru ekki seldir, vil ég spyrja hæstv. ríkisstj.: Með hvaða heimildum lánar ríkisstj. útgerðarfyrirtækjunum, sem reka togarana, þá með 600–700 þús. kr. meðgjöf á ári? Hvað snertir eitt þessara skipa, Jörund, þá held ég, að ríkið hafi ekki látið smíða það, heldur einstaklingur, og skilst mér því, að þar sé um hreina lánsstarfsemi að ræða. Ríkissjóður hefur lánað 1,5 millj. kr. út á það skip, án þess að Alþ. veitti heimild sína til þess, og skipið þar að auki utan við þá 30 togara, sem ríkið sá um smíði á. Hæstv. fjmrh. sagði, að ríkissjóður hefði yfirleitt ekki veitt stofnlán, en upplýsingar þær, sem hér liggja fyrir um lánveitingar, bæði til bátanna og Jörundar, sýna þó allt annað. Hæstv. ráðh. kallaði þetta bráðabirgða tilfærslu í reikningum og sagði, að 13 lánþegar, sem fengu lán út á báta, hefðu gefið út skuldabréf til ríkissjóðs að upphæð rúmar 7 millj. kr., sem lægju nú geymd í Landsbankanum. Er gott til þess að vita, að skuldabréfin eru þar í öruggum höndum, en þetta sýnir, að hér er um hreina stofnlánaveitingu að ræða og ríkissjóður hefur hér veitt stofnlán, hvað sem hæstv. ráðh. kann að nefna það. Hæstv. sjútvmrh. sagði, að nauðsyn hafi til borið að lána til bátanna til að koma þeim í gang. Það er annað mál, en ósvarað er því, hvers vegna ríkisstj. hefur gert þetta án heimilda frá Alþ., þegar skipin komu og ekki var hægt að ráðstafa þeim eins og lög mæltu fyrir.