11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (4008)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er vist óhætt að fullyrða, að það vakti nokkra athygli hér í þinginu, þegar hæstv. fjmrh. skýrði frá því við 1. umr. fjárl. fyrir 1950, að ríkissjóður hefði lánað 25 millj. kr. til skipakaupa, og einnig með hvaða kjörum það var gert. Ég skal láta ósagt, hvort þessi aðgerð hæstv. ríkisstj. sé rétt eða röng, en það eru óneitanlega mikil hlunnindi fyrir þá, sem þessara lána urðu aðnjótandi, að fá þau með þessum kjörum úr ríkissjóði, og geri ég ráð fyrir, að margir hefðu viljað verða þeirra kjara aðnjótandi. En nú eru fleiri, sem lagt hafa í framkvæmdir í þeirri von að fá hagstæð lán og eru komnir vel á veg án þess að hafa fengið nokkra fyrirgreiðslu hjá ríkinu. Hæstv. atvmrh. upplýsti áðan, að nokkur frystihús hefðu fengið loforð fyrir fyrirgreiðslu um lánsútvegun til að ljúka framkvæmdum, sem verið væri að gera, og nefndi hæstv. ráðh. fjögur slík hús, ef ég man rétt. Nú er það ekki nema eðlilegt, að þeir, sem hér eiga hlut að máll, leiti aðstoðar hjá ríkisstj., þegar þeir fá ekki þau lán, sem þeir hafa treyst á að fá til að ljúka framkvæmdum sínum, og væri það ekki nema í samræmi við þá aðstoð, sem ríkissjóður hefur veitt til skipakaupa. En hæstv. atvmrh. tilgreindi aðeins fjögur hús, en mér er kunnugt um mun fleiri hús, er bygging var hafin á, vegna þess að menn fengu ádrátt eða fyrirheit hjá nýbyggingarráði um aðstoð, sem þeir hafa svo ekki fengið, og fæ ég ekki séð, að hægt sé að gera þar mun á aðilum. Ef ríkisstj. telur rétt að lána til húsa, sem þannig stendur á um, þá fæ ég ekki séð, að hægt sé að lána einum en ganga fram hjá öðrum, sem eins er ástatt um. Það var einkum vegna þessa, að ég kvaddi mér hljóðs nú, og vænti ég þess, að litið verði með skilningi á þessi mál.