11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (4009)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil svara hv. 1. þm. S-M., þar sem hann spyr um skuldbindingu ríkissjóðs við togarana. Skuldbindingin er vafalaust sú, að ríkissjóður leggur fram fé til að kaupa togarana og getur ekki losnað við þá aftur nema greiða fyrir sölunni á þennan hátt, því að ekki er um að ræða kaupendur hér á landi, sem gætu greitt út allt kaupverðið. Ríkissjóður hlaut því að standa í skuld fyrir þetta við Landsbankann, eins og hann stendur raunar í dag. En til þess að koma skipunum á flot var gengið frá þessu á þann hátt sem gert hefur verið. Hv. 2. þm. Reykv. minntist á stofnlánadeildina, og þó að ég sé honum í flestu ósamþykkur, er lýtur að útlánum á fé og bankarekstri o. fl. slíku, get ég ekki varizt þeirri hugsun, hvort ekki sé athugandi eins og stendur að láta það fé, sem inn kemur sem afborganir og rennur nú í seðladeildina, renna í stofnlánadeildina og nota það í þeim tilgangi, sem þetta lánsfé er nú notað. En þetta fjármagn er nú talið 12 millj. kr., og sé ég ekki ástæðu til að rengja þá upphæð. Þetta mundi hrökkva langt til að veita þessum togurum stofnlán og mundi síðan endurgreiðast stofnlánadeildinni á næstu árum. Er mjög athugandi, hvort ekki beri að fara þessa leið. — Hvað viðvíkur spurningu hv. þm. V-Húnv. um, hvers vegna þetta hafi ekki verið lagt fyrir Alþ., þá get ég ekki svarað því, en vísa til hæstv. fyrrv. ríkisstj.