22.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (4010)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Viðvíkjandi fyrirspurn þeirri, sem var lögð hér fyrir, er það rétt hjá hæstv. fjmrh., að um það ber að saka fyrrv. ríkisstj., en hún lenti í vandræðum, vegna þess að stofnlánadeildin gat ekki veitt þau lán, sem gert hafði verið ráð fyrir. Viðvíkjandi þeirri fyrirspurn, hvers vegna þetta hefði ekki verið lagt fyrir Alþ., en það var ábyggilega á milli þinga, sem fyrstu skipin komu, og var þá þessi háttur á hafður að leyfa mönnum að ráða á skipin. Gangur málsins var sá, að eigendur fóru út og sóttu skipin, og svo komu þá tilfelli, þar sem stofnlánadeildin gat ekki veitt þeim lán, og var þeim þá leyft að skrá á skipin, en ekki gefið afsal.

Að sumu leyti get ég annars verið því samþykkur, sem hér hefur verið drepið á, m. a. af hæstv. fjmrh., að það þurfi að gera endurbætur á lögunum um stofnlánadeildina; það hefur oft áður komið til tals, og tók hv. 2. þm. Reykv. það réttilega fram, að hann hefur áður bent á það. Ég get hugsað, að þessi vandræði, sem hér virðast vera fyrir höndum, megi leysa tiltölulega auðveldlega og með miklu auðveldara móti en margt annað, sem óleyst er í þessu landi. Hvað snertir þessar 25 milljónir, sem veittar hafa verið til kaupa á skipum, þá stendur ýmislega á um það. T. d. eru um 8 millj. af því til Svíþjóðarbátanna. (EystJ: Er ekki sumt af því með venjulegum vöxtum?) Jú, mikið af því er með venjulegum vöxtum. Mennirnir deponeruðu víxlum fyrir sínu framlagi. — Þá þarf hér einnig að líta til hraðfrystihúsanna, að svo miklu leyti sem þau hafa verið háð bönkunum með sitt stofnfé.

Þá vil ég með nokkrum orðum geta afskipta nýbyggingarráðs af þessum málum, því að þau hafa verið mjög mistúlkuð og á það ráðizt að tilefnislausu. Menn hafa talað um „loforð“ nýbyggingarráðs og „svik“, og er það dálítið frítt útlagt. Þau fyrirheit, sem það gaf, voru meðmæli með lántökum, grundvölluð á kostnaðaráætlunum. Ákveðnir menn, sem störfuðu að því í ráðinu, fóru í gegnum alla reikninga og áætlanir, og ráðið mælti eftir niðurstöðum þeirra með lánum eftir því, hvernig málin voru vaxin. En það gat ekki lofað lánum, aðeins mælt með þeim samkvæmt þeim lögum, sem það starfaði eftir. Þetta hefur mjög verið misskilið og á þessa aðila ráðizt af þeim sökum, og vildi ég því nota þetta tækifæri til að benda á þetta. Meðmæli þess var skyldugt að gefa, en það kom svo til kasta stofnlánadeildarinnar að sinna lánbeiðnunum.