11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (4014)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég held flestir menn hljóti að telja, að það hafi verið nokkuð óvenjulegur stjórnarathafnakafli í sögu þessa lands — kaupin á Svíþjóðarbátunum, nýsköpunartogurunum og svo bátabyggingarnar innanlands. Ég skal ekki segja, hve háa upphæð hér er um að ræða, sem ríkisstj. hefur hér tekið á sig fyrstu og mestu ábyrgðina af. En framkvæmdin á þessu, afhendingin á skipunum og viðskiptin við kaupendur, hefur sumpart lent á þeim mönnum, sem nú eru í ríkisstjórn og sumpart á öðrum. Og þegar hv. þm. Str. stendur hér upp náfölur af fólsku til þess að knésetja mig fyrir ósæmilegt hátterni, þá vildi ég mega minna þennan veraldarinnar lögspeking og óskeikula spámann á það, að fyrsta sporið á þessari braut var stigið að hans ráði og hans flokksmanna. Smíðin á Svíþjóðarbátunum á ríkisins ábyrgð innleiddi hér það ástand, að ríkisstj. færi að skipta sér verulega af þessum málum. — Svo stendur þessi hv. þm. hér upp og talar um það af miklum hroka og brigzlar um það, að ríkisstj. hefur orðið að slaka eitthvað til af illri nauðsyn í framkvæmd á málum, sem þessir sömu herrar eiga upptökin að. Lánveitingar í venjulegum skilningi hefur hér alls ekki verið farið út í. Og það er í vissu falli rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að í raun og veru er hér um millifærslu að ræða, en ekki lántöku. Það var óhjákvæmileg nauðsyn að haga sér með bátana eins og atvmrn. hefur gert. Sami maðurinn — hinn ráðhollasti að allra dómi — hefur þar alltaf farið með þessi mál.

Ég er ekki tilbúinn að taka í þessu efni við neinum skútyrðum af hv. þm. Str. Ég hef reynt með aðstoð mér betri manna að gera það, sem mér hefur verið fært að gera bezt í þessum málum, og miðað þær ráðstafanir við það, að þær kæmu framleiðslunni að sem mestum notum.