18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í D-deild Alþingistíðinda. (4019)

89. mál, stríðsskaðabætur af hálfu Þjóðverja

Fyrirspyrjandi (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Ég beindi þessari fyrirspurn til hæstv. fjmrh., af því að mér hafði verið tjáð, að honum hefðu verið afhentar viðkomandi eignir; en fyrst hæstv. dómsmrh. getur leyst úr þeim spurningum, sem ég hef leyft mér að bera hér fram, get ég vel orðið ásáttur með það.

Ég kom fram með þessar fyrirspurnir vegna þess, að ég hef séð það, að hernámsstjórn bandamanna hefur tjáð ísl. ríkisstj., að hún gæti fengið vissar eignir Þjóðverja hér á landi í stríðsskaðabætur. Bætur þessar voru metnar af nefnd, sem þáverandi dómsmrh. skipaði í stríðslok, og í skýrslu nefndarinnar hefur það meðal annars komið í ljós, að margir Íslendingar hafa farizt, sem ekki voru skyldutryggðir. Þetta voru farþegar, sem ekki voru skyldutryggðir, og ég held, að þeir hafi verið tólf alls. Þegar ég var dómsmrh., komu oft fram fyrirspurnir um það, hvort ekki væri hægt að fá bætur fyrir þessa menn, sem þarna fórust og ekki voru skyldutryggðir.

Það gerist ekki þörf að fara mörgum orðum um þetta, en ég býst við því, ef þessar bætur nema einhverju, að ríkisstj. taki ákvörðun um að láta aðstandendur þessara manna fá einhverjar skaðabætur af því fé, sem fengizt hefur í skaðabætur frá Þjóðverjum, en ég vænti þess, að hæstv. dómsmrh. geti upplýst þetta, og bíð ég frekari svara frá honum.