12.01.1950
Efri deild: 30. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil enn leyfa mér að bera fram brtt. við frv., samhljóða þeirri, sem ég flutti í gær. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta mál, svo mikið sem um það hefur verið talað, en ég vil þó segja þetta, um leið og ég legg brtt. fram:

Ég hélt því fram í gær, að með því að taka ábyrgð á lifrinni þá ynnist það, að sá hagnaður, sem útvegsmönnum yrði að opinberum aðgerðum í sambandi við lifrarverð, kæmi jafnar niður og útvegsmenn og hlutarsjómenn úti um land nytu nokkurs í. Þetta atriði hefur mér vitanlega ekki verið hrakið. Meginrök andstöðumanna till. hafa verið, að hún sé óframkvæmanleg, og að þessu hafa hnigið ummæli þeirra hv. þm., sem á móti henni hafa staðið. Ég hef reynt eftir megni að gera mér grein fyrir rökum þessara hv. þm., en finnst þau að verulegu leyti vera sýndarrök. Framkvæmdin á þessu hefði að vísu orðið allerfið með viðaukatill., sem samþ. var í gær, frá hv. þm. Barð. (GJ), en ég er sömu skoðunar og þá, að slíkur viðauki sé alls ekki nauðsynlegur. Það eru alveg sérstaklega rök í mínum huga, að mér skilst, að ekki sé reiknað með breytilegu lifrarverði á vertíðinni hjá lifrarbræðslunum. — Þá er því haldið fram, að ógerlegt verði að vita nokkuð um lifrarmagnið, en ég hefði haldið, að styðjast mætti við innvegið lifrarmagn frá bræðslunum. — Þá er því einnig haldið fram, að ógerlegt sé að komast fyrir uppruna og gæði lifrarinnar. Það getur vel verið, að þetta sé erfitt, en ekki er það ógerlegt. Það hefur ekki verið talið ógerlegt að finna uppruna fisks, og ætti þá ekki að vera stórum erfiðara að greina uppruna lifrarinnar úr sama fiski.

Ég tók eftir því, að hæstv. atvmrh. mælti með því í hv. Nd. í gær, að lifrin yrði tekin á frílista og að þannig yrði bætt úr því misræmi, sem ýmsir telja, að sé á milli landshluta viðvíkjandi frílistanum. En ég hygg, að hér sé um vafasama leiðréttingu að ræða. Vitað er, að meginhluti lifrarmagnsins er í þeim landshluta, sem situr sólarmegin í sambandi við hinn svo nefnda frílista. Nú eru að vísu margir bátar utan af landi, sem stunda hér veiðar á vertíðum, en hætt er við því, að hagnaðurinn af lifrinni, ef hún væri á frílista, rynni til þeirra, sem lifrina kaupa, en síður til þeirra báta, sem hennar afla. Þetta sýnist því vera hæpin leið til að bæta úr því misræmi, sem er í sambandi við frílistann. Þar að auki er það mín skoðun, að ekki eigi að auka frílistann og mjög vandséð, hvar takmörkin ættu að vera, ef þessi allstóri þáttur útflutningsframleiðslunnar, lýsið, yrði tekinn upp á þann lista. Nú var vikið að því í gær, að þótt það yrði ekki samþ. í hv. Alþingi að taka lýsið á frílista, þá mundi hæstv. ríkisstj. gera það, og það jafnvel þótt ábyrgðarverðið yrði samþ. Jafnvel þótt svo yrði gert, þá tryggir ábyrgðarverðið á lifrinni bæði útvegsmönnum og sjómönnum ákveðið verð fyrir lifrina, og er það mikið öryggi.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar, en vil segja að lokum, að hæstv. ríkisstj. verður að sjálfsögðu að setja nánari ákvæði um lifrarábyrgðina, eins og raunar margt fleira í sambandi við fiskábyrgðina. Og það verð ég einnig að láta í ljós, að þótt ég beri ekkert sérstakt traust til hæstv. ríkisstj., þá treysti ég hæstv. atvmrh. til að framkvæma hina umtöluðu lifrarábyrgð, eins og hann er gagnkunnugur þeim málum.