18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (4025)

901. mál, réttindi og skyldur opinberra starfsmanna

Fyrirspyrjandi (Rannveig Þorsteinsdóttir) :

Herra forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn um það, hvað líði undirbúningi frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Þegar verið var að ganga frá launalögunum 1945, þá lofaði ríkisstj. því, að samið skyldi frv. til l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, og var það falið Gunnari Thoroddsen prófessor. Haustið 1946 flutti prófessorinn svo erindi um þetta efni á þingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og var þá þegar greinilegt af því erindi, að talsvert hefur verið komið af gögnum um þetta mál. Síðan var, haustið 1948, gengið á fund dómsmrh. í sambandi við bandalagsþing, sem þá var haldið hér, og upplýsinga leitað varðandi frv. Þá var frv. komið enn lengra áleiðis, þannig að nú var hægt að gera sér grein fyrir ákvæðum einstakra greina frv., en síðan hefur ekki neitt frétzt um það. En eftir að þessi fyrirspurn var fram komin, hef ég fengið að vita, að Gunnar Thoroddsen hefur lokið við sitt verk og lagt það fram í rn.

Jafnframt spyr ég um það, hvort álits þeirra aðila, sem hlut eiga að máli, hafi verið leitað við undirbúning málsins.

Mér er kunnugt um það, að Gunnar Thoroddsen hefur haft nokkurt samband við nokkra opinbera starfsmenn varðandi málið, en það eru ekki eingöngu þeir, sem ég á við, heldur tel ég mjög mikilsvert, að álits sé leitað hjá þeim, sem eiga að búa við lögin, og samráð haft við þá, og það eru ekki eingöngu opinberir starfsmenn. Ég tel, að bæta þurfi við og hafa beri samráð við forstöðumenn ýmissa fyrirtækja, sem áhuga hafa á þessum l., því að nú á síðustu árum hafa orðið sífelldir árekstrar, þar sem vinnutími er annar en almennt gerist, því að það er vont og erfitt að fá nokkra festu um ákvörðun launa og vinnutíma, meðan ekki er beinn lagastafur um það. En þegar ég tala um aðila, þá á ég einnig við þetta, sem ég hef nú skýrt frá.

Í þriðja lagi spyr ég, hvort vænta megi, að frv. þetta verði lagt fram á þingi því, er nú situr.