18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (4026)

901. mál, réttindi og skyldur opinberra starfsmanna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Um einstaka liði fyrirspurnarinnar skal þetta tekið fram:

1. Frv. hefur verið skilað í hendur rn., og er það nú í prentun, og mun þó ekki til hlítar lokið við greinargerð, en svo sem kunnugt er var Gunnari Thoroddsen borgarstjóra, þáverandi prófessor, á sínum tíma falið að annast samningu frv.

2. Meðal fylgiskjala frv. eru ályktanir samtaka opinberra starfsmanna varðandi þessi mál, og hefur verið höfð hliðsjón af þeim, og jafnframt hefur Gunnar Thoroddsen átt ýtarlegar og ítrekaðar viðræður við þar til kjörna fulltrúa frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Á þeim umræðufundum hafa verið rædd, lið fyrir lið, einstök atriði frv. Hins vegar hefur þótt rétt, að þingnefndir leiti formlega álits samtakanna, svo og annarra aðila, ef þurfa þykir, með venjulegum hætti við þinglega meðferð málsins. Hins vegar hef ég ekki talið, að leita þyrfti annarra aðila, frekar en gert hefur verið, og ekki álitið það hafa þýðingu, af þeirri ástæðu, að réttarsamband þessara aðila er ekki skylt að heyra undir ákvæði þessa frv., og ríkisstj., getur ekki skipað svo fyrir, að þeir heyri því til.

3. Gera má ráð fyrir, að frv. verði lagt fyrir Alþingi, áður en langt um líður.