01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (4037)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Fyrirspyrjandi (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Með fyrirspurn þessari er farið fram á að fá upplýsingar hjá hæstv. viðskmrh. um eftirfarandi atriði:

1) hvort á s. l. tveimur árum hafi verið veitt innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir fólksflutningabifreiðum. Hafi leyfisveitingar átt sér stað, þá að fá upplýst, hve mörg leyfi hafi verið veitt;

2) að fá upplýsingar um það, hve mörg innflutningsleyfi án gjaldeyris hafi verið veitt fyrir fólksflutningabifreiðum frá 1. jan. 1948 til 15. júlí 1949, en þá tilkynnti viðskiptanefnd, að þeir, sem fengju vinnulaun greidd í erlendum gjaldeyri, gætu fengið innflutningsleyfi fyrir bifreiðum, að fullnægðum tilteknum skilyrðum;

3) hve mörg innflutningsleyfi fyrir fólksflutningabifreiðum hafi verið veitt eftir 15. júlí 1949 til áramótanna.

Einnig er óskað eftir að fá upplýst, undir hvaða kringumstæðum og eftir hvaða reglum leyfin hafi verið veitt.

Það er öllum almenningi kunnugt, að eftirspurn eftir fólksflutningabifreiðum hefur verið gífurleg undanfarandi ár. Frá atvinnubílstjórum hafa komið háværar raddir um, að þeir hafi orðið freklega út undan við leyfisveitingar og gætu því ekki á eðlilegan hátt endurnýjað bifreiðakost sinn. Læknastéttin mun og hvað eftir annað hafa knúið á dyr gjaldeyris- og innflutningsyfirvaldanna án árangurs.

Á sama tíma sem atvinnubílstjórum og læknum hefur verið með öllu synjað um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, virðast aðrir aðilar hafa haft aðstöðu til þess að koma bifreiðum til landsins, þar sem nýir bílar hafa að jafnaði verið fáanlegir fyrir hvern sem er fyrir 3–4falt innkaupsverð. Mun það nú orðið ekki fátíður verzlunarmáti, að slíkar bifreiðar séu seldar, áður en þær eru teknar úr umbúðunum, sem þær hafa verið fluttar í til landsins, þ. e. a. s. seldar í kassanum, eins og það mun kallað.

Ég vil leyfa mér að nefna tvö dæmi, sem sýna glöggt, hvernig ástandið hefur verið í þessum málum undanfarandi 2–3 ár.

Á Bifreiðastöð Oddeyrar á Akureyri hafa verið starfandi um 30 bifreiðarstjórar, sem flestir eða allir eiga bíla sína sjálfir. Samkvæmt upplýsingum starfsmannafélags stöðvarinnar voru árið 1947 keyptir 4 nýir bílar til stöðvarinnar á svörtum markaði, árið 1948 12 bílar og árið 1949 2 bílar, eða samtals 18 bílar af þeim 31, sem nú eru á stöðinni.

Samkvæmt upplýsingum Samvinnufélagsins Hreyfils munu um 100 atvinnubílstjórar hér í bænum hafa keypt bifreiðar á svörtum markaði s. l. 2–3 ár, en alls munu vera um 450 atvinnubílstjórar starfandi í bænum.

Ég vænti þess, að hæstv. viðskmrh. upplýsi sem gleggst þau atriði, sem fram á er farið í fyrirspurn þessari.