01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (4040)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Finnur Jónsson:

Út af fyrirspurn hv. þm. Ak. er upplýst, að það hefur komið talsvert af bifreiðum inn í landið á árinu sem leið og verulegur hluti af þeim seldur á svörtum markaði, sem kallað er. Nú er ákvæði í 31. gr. l. um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, að greiða skuli 20% af matsverði bifreiða, sem seldar eru innanlands, í ríkissjóð. Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að spyrja hæstv. fjmrh., hvort þessu hafi verið fylgt um bifreiðar, sem ganga kaupum og sölum í kassanum og fluttar hafa verið inn á þann hátt, sem upplýst hefur verið. Það er kunnugt, að ef skrásettar bifreiðar hafa gengið kaupum og sölum, hafa matsmenn verið starfandi og metið bifreiðarnar, og þeir, sem hafa selt þær, hafa þurft að greiða tiltekið gjald í ríkissjóð, en nokkrar af þeim bifreiðum, sem hafa gengið kaupum og sölum á svörtum markaði, hafa ekki verið skrásettar, þegar salan fór fram. Það væri æskilegt að fá að vita, hvort sams konar reglur hafa gilt um þá, sem hafa selt bifreiðar á svörtum markaði, áður en bifreiðarnar voru skrásettar, eins og þá, sem hafa selt þær skrásettar.