01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (4043)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Út af því, sem hv. 3. landsk. og hv. 2. þm. Rang. sögðu um bifreiðainnflutninginn á tímabilinu frá 1. jan. 1948 til 15. júlí 1949, skal ég ekki segja, hvernig í því liggur. En svar við þeirri fyrirspurn, sem lögð hefur verið fram, er ekki annað en það, sem hér er greint frá. Þessar upplýsingar eru frá sjálfri viðskiptanefnd, og aðrar betri heimildir gat ég ekki fengið. Um það, hvort þessir 150 bílar, sem veitt hafa verið leyfi fyrir á þessu ári, eru þegar innfluttir, veit ég ekki. Ég geri ráð fyrir, að sumir þeirra hafi þegar verið fluttir inn, en aðrir ekki. Hins vegar er búið að gefa út þessi leyfi, og undir þeim kringumstæðum hefur ekki verið talið fært að eyðileggja leyfin og ónýta þær ráðstafanir, sem menn eru búnir að gera í þessu sambandi.

Að því er snertir heildaryfirlit yfir bifreiðainnflutninginn síðustu ár, þá veit ég ekki til, að það hafi verið gert. Það má að vísu segja, að fróðlegt væri að sjá, hver hann hefur verið, og skal ég láta gera athuganir á því.

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði um greiðslu á skatti í sambandi við sölu bifreiða, þá er það rétt hjá honum, að möguleikar eru á því, að menn geti selt bifreiðarnar í kössunum, áður en þær koma til skrásetningar. Ég skal ekki um það segja, hvort vakað hefur fyrir löggjafanum, að skattarnir lentu á slíkri sölu, en það er mjög erfitt fyrir yfirvöldin að fylgjast með þeim breytingum, sem verða á eignarheimild bifreiða, sem ekki hafa verið skráðar. Og þó að æskilegt væri, að skattarnir gætu nú lent á slíkum viðskiptum, eins og allt er í pottinn búið, þá tel ég mjög miklum erfiðleikum bundið að geta fylgzt með slíku, því að það eina, sem lögreglustjóri getur stuðzt við í þessu sambandi við að ákveða, hverjir skuli skattskyldir, er þegar menn koma með beiðni um að breyta skrásetningu á bifreiðunum, af því að þær hafa skipt um eiganda.

Út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. beindi til mín í sambandi við læknabifreiðar, skal ég upplýsa, að mér er ekki persónulega kunnugt um neina málaleitun í því sambandi, þó að vera megi, að hún liggi hjá fjárhagsráði, en mér er kunnugt um, að ýmsir læknar eiga í erfiðleikum með að fá bifreiðar, en veit ekki, hvernig gangur þessa máls hefur verið í þeirri stofnun, sem hefur haft vald til að veita leyfin. En ef það kemur til minna kasta í viðskmrn., mun ég að sjálfsögðu láta athuga það mál.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að þessi mikli bifreiðainnflutningur væri mjög varhugaverður. Ég er honum sammála um þetta, en hef ekki hugsað mér að koma inn á þá hlið málsins, því að mitt verk er að svara þeirri fyrirspurn, sem fyrir liggur. En ég skal upplýsa, að ég hef látið afnema þær reglur, sem gilt hafa um bifreiðainnflutning, þannig að frá áramótum hefur ekki verið tekið við neinum slíkum beiðnum, og er þessi reglugerð nú ekki lengur í gildi. Hins vegar er því ekki að leyna, að þessir 150 bílar, sem leyfi hafa verið veitt fyrir á s. l. ári, eru ekki þeir síðustu, sem leyfi verða veitt fyrir. Þegar ég stöðvaði framkvæmdir á þessu fyrir áramótin, var nefndin búin að gera vissar ráðstafanir, sem hún hefur talið bindandi fyrir sig og hafa verið það í mörgum tilfellum, þar sem nefndin var búin að gefa mörgum mönnum upp númer á þeim innflutningsleyfum, sem þeim bar að fá. Nefndin hafði gengið frá þessu máli áður, en hún lauk störfum, og árangurinn hefur orðið sá, að orðið hefur að veita mikið af þeim bifreiðum, sem lágu óafgreiddar hjá n., því að hún taldi sig hafa gefið skuldbindingu fyrir því, að viðkomandi menn fengju bílana, og hafði ég hvorki vilja né getu til að gera þá menn, sem stóðu að þessari framkvæmd, að minni mönnum með því að svipta þá þeirri framkvæmd, sem þeir þegar höfðu tilkynnt, en hins vegar var dregið talsvert úr þeirri tölu bifreiða, sem fyrir lá, svo að segja má kannske, að ýmsir af þessum mönnum, sem á árinu sem leið höfðu komið undir reglugerðina, hafi borið nokkuð skarðan hlut frá borði, þegar skorið var fyrir þetta á s. l. ári.