01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (4044)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi. aðeins vekja athygli á tveimur atriðum í sambandi við þetta mál. Hv. 4. þm. Reykv. vék að því, að réttlátt væri og óskaði fyrirgreiðslu af hálfu hæstv. viðskmrh., að læknar hér í Rvík yrðu látnir sitja fyrir um innflutning bifreiða. Ég skal fyllilega viðurkenna, að ýmsa lækna hér í bænum skortir þessi tæki mjög, og er mjög æskilegt, að þeir geti eignazt þau starfs síns vegna og aðstoðar almennings vegna. En ég vil í þessu sambandi benda á það, að læknar og embættismenn víða úti um landið þurfa ekki síður á fyrirgreiðslu að halda í þessum efnum. Ýmsa lækna í sveitahéruðum og sjávarþorpum skortir mjög þessi tæki og hafa á þeim tímabílum, þegar mikið hefur flutzt inn af þessum tækjum, orðið að heyja harða baráttu fyrir að ná í þau, en hefur ekki tekizt það. Þeir, sem hafa setið næst þeim háu ráðandi nefndum, sem á hverjum tíma hafa haft úthlutun þessara tækja með höndum, hafa haft betri aðstöðu, og þess vegna er það, að embættismenn, ekki aðeins læknar, heldur ýmsir aðrir, sem nauðsynlega þurfa á þeim að halda, hafa orðið mjög hart úti í þessum efnum, og ekki aðeins að þeir gjaldi þess persónulega, heldur og byggðarlög þeirra. Ég vildi vekja athygli á þessu, því að ef á næstunni yrði flutt eitthvað inn af þessum nauðsynlegu tækjum, bæri ekki síður að líta á þörf þeirra, sem úti á landi búa, en þeirra lækna og embættismanna, sem í meira þéttbýli búa.

Ég vil svo leyfa mér að minna á það, að á síðasta Alþ. var samþ. þáltill. um innflutning jeppabíla til landbúnaðarþarfa, þar sem Alþ. skorar á ríkisstj. að hlutast til um, að á næstu árum verði fluttir til landsins ekki færri bílar en þar eru taldir til landbúnaðarþarfa, sem eingöngu verði seldir bændum. Nú er öllum vitanlegt, að úr framkvæmd þessarar till. hefur ekkert orðið, og er orsökin auðsæ, þ. e. að gjaldeyri hefur brostið. Ég vil í þessu sambandi beina því til ríkisstj. og þá ekki sízt hæstv. viðskm- og landbrh., að ríkisstj. athugi, hvort ekki væri unnt á þessu ári að taka einhverja tölu landbúnaðarjeppa og annarra hliðstæðra bíla upp á hinn svokallaða Marshalllista. Það er vitað, að flutt hefur verið inn talsvert af landbúnaðartækjum fyrir Marshallfé, og það er líka viðurkennt, að jeppar eru meðal þeirra landbúnaðartækja, sem nauðsynlegust eru og eftirsóttust, og má fullyrða, að þeir séu langsamlega eftirsóttustu tækin. — Ég hygg, að forseti sé að gefa merki um, að tími minn sé á þrotum, og vil ég aðeins taka fram að lokum, að ég vænti þess, að ríkisstj. athugi þetta, hvort ekki mætti reyna að flytja inn þessi tæki fyrir Marshallfé og fullnægja þannig yfirlýstum vilja Alþingis, sem þegar hefur verið getið um.