01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (4046)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í þessar umr., en vildi þó benda á það í fyrsta lagi, að ef fjmrh. vill verða við þeirri ósk, að læknar fái bíla, þá verður hann að athuga, að það eru nokkrir læknar, sem hafa fengið 2–3 bíla, dæmi til um 4 og einstaka dæmi um 5. Ég held þess vegna, að þegar hann fer að úthluta bílum til læknanna, verði hann að athuga, hvaða læknar hafa gert bílainnflutninginn að svartamarkaði fyrir sjálfa sig, og ætti þá að útiloka þá lækna. — Í öðru lagi vil ég benda á, að þótt læknar geti ekið lúxusbílum eftir götum hér í Rvík, því að þær eru margar sæmilegar, eru þeir algerlega ónothæfir fyrir lækna víða úti á landi. Ef á að fullnægja bílaþörf þeirra, verða þeir að fá jeppa, en læknar úti á landi munu ekki hafa fengið neina bíla margir hverjir. Enn fremur eru svo ýmsir aðrir, sem hafa þess konar störf með höndum, að þeir þurfa að vera á sífelldu ferðalagi, en hafa engin farartæki. Þessir menn þurfa líka að fá bíla. Það munu vera um 30–40 menn, sem þarna er um að ræða og vegna sífelldra ferðalaga þurfa nauðsynlega á farartækjum að halda, svo sem héraðsráðunautar o. fl.