01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (4048)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér finnst eitt mjög einkennilegt, sem komið hefur fram í þessum umr., og það er viðvíkjandi framkvæmd á ákvæðum 31. gr. viðkomandi l., um 20% gjald af matsverði bifreiða, sem ganga kaupum og sölum innanlands, en gjaldið átti að renna í dýrtíðarsjóð. Svar það, sem kom við fyrirspurn hv. þm. Ísaf., frá fjmrh., er ekki greinilegt, en mér finnst þó hafa komið fram, að það muni hafa verið látið niður falla að innheimta þetta gjald af verði bifreiða, sem seldar höfðu verið áður en þær voru skrásettar á nafn. (Fjmrh.: Mesti misskilningur.) Ég hugsa, að fleiri en ég hafi dregið þá ályktun af ummælunum, að það hafi verið látið niður falla að innheimta gjaldið af þeim bifreiðum, sem höfðu verið seldar í kössunum. (Fjmrh.: Misskilningur.) Ég vil fá skýr svör. Hafa þá verið greidd þessi gjöld af öllum bifreiðum, sem seldar hafa verið innanlands, hvort sem sala átti sér stað eftir að búið var að skrá bifreiðarnar á nafn einhverra eigenda hér eða ekki? Því að það er auðséð, að það átti að greiða þetta gjald af öllum bifreiðasölum sem áttu sér stað. Hæstv. ráðh. minntist á, að það væri algild regla, að menn gætu framselt innflutningsleyfi, sem þeir fengju, og er það rétt. Það átti ekki að koma til mála, að menn gætu selt bíla með slíkum hætti og svikizt um þetta gjald. Það er beint brot á þessari lagagr., hafi verið látið hjá líða að innheimta þetta gjald, og fannst mér koma fram, að þetta hafi verið látið niður falla. Hæstv. ráðh. sagði, að menn gætu gefið bifreiðaleyfi. Það er rétt, og menn geta líka gefið bíla. En þó að menn gerðu það, þá sleppa þeir ekki við þetta gjald um leið og eigendaskipti fara fram, og kæmi það þá eins til greina, þó að menn teldu sig hafa gefið innflutningsleyfi. Mér finnst ástæða til að fá svör við þessu, því að hafi verið látið hjá líða að innheimta sölugjald af þeim bílum, sem seldir hafa verið hér í kössunum, tel ég það mjög ámælisvert, því að það hefði verið mjög auðvelt að fylgjast með þeim eigendaskiptum, hvort sem bifreiðarnar voru skrásettar á nafn þess, sem fékk innflutningsleyfið, eða ekki, því að það átti auðvitað að innheimta gjaldið.