12.01.1950
Efri deild: 30. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að tala í þessu máli og skal reyna að draga þessi mál ekki inn á almennari umr. en tilefni er til. En ég vil þó að nokkru svara orðum, sem hæstv. atvmrh. lét falla í þessu sambandi.

Hæstv. ráðh. var að víta þingið fyrir drátt á þessu máli. En hvað eru margir dagar síðan málið kom fyrir Alþingi? Ég tala nú ekki um, hvað langt er liðið síðan það kom fyrir Ed., dagurinn í dag og í gær. Og hér er um mál að ræða, sem veltur á milljónatugum fyrir ríkissjóð. Ég kann ekki við þetta. Er nokkuð undarlegt, þótt við viljum ræða málið örlítið í tvo eða þrjá daga, þegar það hefur tekið hæstv. ríkisstj. 40 daga að koma frv. saman? Og svo þegar hæstv. stj. loksins kemur með það, þá er það alveg samhljóða gamla frv. um sama efni, aðeins breytt nokkrum tölum og ein grein felld úr og þremur greinum bætt við. Það er það minnsta, að hv. alþm. fái að athuga frv., og mér finnst alveg óþarfi að ráðast að hv. þm. fyrir drátt á málinu, alveg án tilefnis. — Í annan stað er talað um það eins og einhverja goðgá að samþykkja ábyrgðarverð á eina vörutegund til viðbótar. Ég get ekki séð, að það sé nein goðgá, því að þetta er allt neyðarúrræði, og yfirlýst, að ábyrgðin eigi ekki að standa nema í tvo mánuði. Með þessu eru hv. þm. raunverulega að velja milli þess, hvort útgerðin eigi að stöðvast eða halda áfram. Svo er talað um þetta eins og hv. þm. haldi, að peningarnir fyrir ábyrgðinni séu teknir úr loftinu. En hvar eru þeir peningar teknir, ef ekki með álögum á þjóðina? Þeir eru teknir nákvæmlega eins, ef ríkisábyrgðarleiðin er höfð, að öðru leyti en því, að þingið hefur vald til þess að ákveða, hvar peningarnir eru teknir til ábyrgðanna, en hins vegar hefur þingið ekki vald á því, hvað ríkisstj. leggur mikið álag á gjaldeyrinn, sem hún gerir, ef þetta er á frílista, því að þá ákveður ríkisstj., hvað er lagt á gjaldeyrinn, sem fæst fyrir vörurnar, sem eru á frílista. Það er ekki svo sem menn losni við álögur á þjóðina, þó að sett sé vara á frílista. Þess vegna er hér í raun og veru með ríkisábyrgð verið að gera nákvæmlega það sama og gert er, þegar vörur eru settar á frílista. Það er verið að leggja þetta á bak þjóðarinnar, stuðninginn við bátaútveginn, því að annars staðar er ekki hægt að koma byrðunum niður. En í öðru tilfellinu segir þingið: Ég ræð, hvar byrðarnar leggjast á, en í hinu tilfellinu á ríkisstj. að ákveða, hvar byrðarnar koma niður.

Það hefur verið sagt í sambandi við þessar umr., að sjómenn viti ekki, hvaða verð þeir fái fyrir lifrina, ef farin er sú leið að bæta hana upp með því að láta lýsið á svo kallaðan frílista, þ.e.a.s. selja lýsið með gjaldeyrisálagi. Hvað vita þeir um það verð í janúar eða febrúar? Þeir vita ekkert um það. Ef menn ættu að geta vitað um þetta álag, þá þyrfti ríkisstj. að gefa út tilkynningu um þetta og líka gagnvart aðkomubátum, er selja hér lifur og þyrftu þá að geta vitað um þetta, ef sú leið væri farin. En með ábyrgðinni vita sjómenn nákvæmlega, að hverju er að ganga. Þeir vita þá um verðið. — Það er talað um hér í þingsölunum, að ríkisstj. muni setja lýsið á frílista, jafnvel þó að samþ. verði brtt. um ábyrgð á lifrarverðinu. En yrði sú leið farin mundu aðkomubátar ekki geta vitað t.d., að hverju er að ganga um lifrarverðið, þegar þeir selja lifrina, sem væri miklu gleggra og hreinna, að þeir vissu, en að setja lýsið á frílista. Annars teldi ég ekki leyfilegt að láta lýsið á frílista, ef brtt. þessi væri samþ. Það er meir en lítið vafasamt, að nokkur hluti at frílistanum sé leyfilegur.

Mér dettur ekki í hug að tala með lítilsvirðingartón um sjónarmið, sem koma fram hjá flokki hæstv. atvmrh. eða frá þeim jafnaðarmönnum, sem fylgja sjónarmiði þess hæstv. ráðh. að málum. En það er ekki ástæða heldur til þess að tala í þessari tóntegund um það, sem við hinir viljum í málinu, því að við þykjumst líka hafa rök að mæla. Ég hef ekki talað um málið í þessari tóntegund, heldur hef ég lítils háttar bent á þau rök, sem við teljum okkur hafa fyrir því að samþykkja þessa till. hv. 2. þm. S-M. Og ég hef reynt að binda mig aðeins við þau rök, en ekki farið inn á að deila sérstaklega á þá, sem hafa hin sjónarmiðin. Og ég vil segja, út frá almennri hugleiðingu um það, hvað eru rök, að þá sé ekki hægt að neita því, að rök séu eins til staðar fyrir þeim málstað, sem við, sem fylgjum brtt. hv. 2. þm. S-M., teljum okkur rétt að verja, eins og fyrir hinum málstaðnum, sem aðrir fylgja, því að það kemur óbeint til viðbótar þessum atriðum, sem hér hafa verið rædd, að ýmsir vilja mikið til þess vinna, að á þessu tveggja mánaða tímabili, sem ábyrgðin á að gilda fyrir, verði ekki farið lengra inn á frílistafarganið, en komið er. Og það kynni svo að fara, án þess að tími sé til þess að ræða það hér, að þegar fara á að gera frambúðarráðstafanir fyrir atvinnulífið og fjármálaástandið í landinu, þá verði því verra að fást við að gera þær ráðstafanir, eftir því sem fleira er komið inn á þennan frílista, því að þegar menn eru komnir inn á frílistann með vörur, getur verið erfiðara að kippa þessu í liðinn aftur.

Ég ætlaði alls ekki að ræða um þetta mál nú, en ég taldi mig til knúinn að láta þessi orð mín falla, að gefnu tilefni.