12.01.1950
Efri deild: 30. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Frv. þetta er nú aftur komið til þd., og hefur í hv. Nd. verið fellt niður ákvæðið, sem hér var samþ. sem brtt. við frv. í gærkvöld. Og þannig sýnist, að í raun og veru vilji meiri hl. hæstv. Alþ. ekki hafa afgreiðslu þessa máls á þann veg, sem hér urðu úrslitin þá. Ég sýndi þá fram á það með rökum, hvaða erfiðleikar yrðu á framkvæmd málsins, ef brtt. hv. 2. þm. S-M. yrði endanlega samþ. Nú hefur sú brtt. verið aftur tekin upp hér í hv. d., og því hefur verið haldið fram, að samþykkt hennar mundi enga erfiðleika skapa í sambandi við framkvæmd málsins. Hins vegar hefur því verið haldið fram, að mjög miklir erfiðleikar yrðu á framkvæmd málsins eftir þeirri brtt., ef henni væri breytt á þann veg, að samþ. væri við hana á ný brtt. sú frá mér, sem samþ. var við hana í gærkvöld, og er á þskj. 211. Nú hef ég ekki hugsað mér að bera fram þessa brtt. hér við þessa umr., þó að ég hafi haldið fram, að ekki hafi verið hrakið það, sem ég sagði um hana í gær, því að það stendur fast, að það er óverjandi að veita verðábyrgð með sama hætti fyrir slæma vöru eins og fyrir aðra miklu betri vöru. Ég hef tekið þessa ákvörðun, að bera brtt. ekki fram nú, m.a. til þess, að þeir menn, sem stofna til þessara erfiðleika hér, geti ekki kennt öðrum um framkvæmdarörðugleikana, sem verða í sambandi við það, ef brtt. hv. 2. þm. S-M. verður samþ., eins og sá hv. þm. taldi í þessu sambandi, að samþykkt minnar brtt. mundi skapa einhverja framkvæmdarörðugleika í sambandi við ábyrgðina á lifrarverðinu. Hann er ungur þm., og það er bezt, að hans brtt. verði samþ. hér, til þess að hann sjái, hvernig hún verkar í framkvæmd og hvaða örðugleikum hún veldur. — Mun ég ekki skipta mér frekar af þessu atriði málsins.