03.05.1950
Sameinað þing: 43. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (4061)

149. mál, ráðstöfun tíu togara

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. skal ég gefa þessar upplýsingar: Það var 5. apríl s. l., sem ríkisstj. auglýsti eftir umsóknum um þá 10 togara, sem samið hefur verið um að byggja í Bretlandi. Þetta var gert í því skyni að kanna, hvaða eftirspurn væri eftir togurunum hér heima fyrir. Umsóknarfresturinn var úti fyrir 12 dögum síðan, en fyrirspurnir og umsóknir hafa verið að berast þar til nú fyrir 3 eða 4 dögum. Eftirtaldir aðilar hafa látið í ljós óskir um að kaupa togara, ef samkomulag næðist um það: Bæjarstj. Reykjavíkur hefur spurzt fyrir um 6–7 togara, Húsavík 1, Ísafjörður 2, Siglufjörður 1, Akranes 1, Hafnarfjörður 3, H/f Venus 1, og Verzlun Ólafs Jóhannessonar Patreksfirði 2. Þetta eru 17–18 fyrirspurnir eða umsóknir, eftir því hvort reiknað er með 6 eða 7 hér í Reykjavík. Ég skal geta þess, að enn fremur hafa bæjarstj. Akureyrar og hreppsn. Hólshrepps í Norður-Ísafjarðarsýslu beðið um frekari upplýsingar í sambandi við sölu togaranna, án þess að hafa beinlínis sent umsóknir um þá. Það skal tekið fram, að allar þessar umsóknir eru algerlega án skuldbindinga og eru háðar því, að samkomulag náist um greiðsluskilmála. Ég skal taka það fram sérstaklega, vegna fyrirspurnar hv. 2. þm. Reykv., að eftir að ríkisstj. hafði kynnt sér þær fyrirspurnir og umsóknir, sem fyrir lágu, hefur hún ákveðið að fela sérstökum trúnaðarmönnum sínum nú alveg á næstunni að ræða við umsækjendur og fyrirspyrjendur um það, hvaða möguleikar muni vera fyrir hendi hjá þessum aðilum til að eignast skipin. Fleiri upplýsingar get ég ekki gefið um málíð, enda er þess varla að vænta á þessu stigi málsins.