12.01.1950
Efri deild: 30. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég satt að segja veit ekki, hvort mér tekst nú að tala í þeim tón, sem fellur í geð hv. þm. Str., sem virðist vera eitthvað óánægður yfir því, hvernig talað var. En það var ekki svo sérlega margt, sem ég sagði, og ekki ástæða til að fara að skella á hrókaræðu þess vegna. En ég tel það veigamestu rökin í þessu máli, að útvegsmenn hafa alls ekki óskað eftir þeirri ábyrgð, sem hv. Framsfl. vill nú fyrir hvern mun láta þá fá, til þess að forða því, að þeir fái sinn vilja. Það eru rök í mínum augum, að óskir útvegsmanna, sem voru bornar fram við umr., sem fram fóru í þinghléinu, þær nái að því leyti fram að ganga sem vert er, og það sé ekki verið að gera sér leik að því að samþykkja annað, sem er á móti þeirra óskum. Ef hv. þdm. muna, hvaða verðhugmyndir fram konu settar af fulltrúafundi L.Í.Ú., og líta svo á þá ábyrgð, sem í frv. er lagt til, að höfð verði á fiskinum, þá geta allir hv. þdm. skilið það, að það muni ekki hafa verið að öllu leyti geðfellt útvegsmönnum, að ríkisstj. fór svo langt sem raun bar vitni með ábyrgðina frá þeirra óskum, úr kr. 1,04, sem voru þeirra kröfur, niður í 75 aura. Þegar nú svo var gengið á þeirra rétt, eða hvað maður nú á að kalla það, a.m.k. á móti þeirra vilja, í þessu atriði, þá er það að vissu leyti nokkur skylda, sem hvílir á mér, sem hafði nokkuð með að gera þessi viðtöl og samningaumleitanir, að reyna að fá þá hinar minni háttar óskir þeirra frekar í gegn og að forðast það, að þvert ofan í þeirra vilja sé verið að fara aðrar leiðir. — Ég hélt satt að segja, að hv. þm. Str. mundi segja allt annað en hann var að segja hér. Ég var alls ekki að ámæla hv. þd. fyrir óhæfilegan drátt á málinu. Hitt sagði ég, og segi það af fullum rökum, að þegar við erum að fleygja svona till,. á milli deilda, hvað eftir annað má heita, þá er það gott, að það er ekki sérlega mikið að gera, eða það gerir þá minna til, þó að tímanum sé í það eytt, ef annars lítið er að gera. því að það mundi kannske vera kallaður þrái af einhverjum að vera að halda þessu, fram æ ofan í æ á svona skinrökum, eins og fram hefur komið. En hv. till.-menn vilja nú endilega hafa það svona. Náttúrlega verða atkv. úr þessu að skera. — Ég hefði vel getað trúað hv. þm. Str. til þess að segja sem svo, en ekki það, sem hann sagði, — að hann hefði alltaf séð það fyrir allan tímann, sem fiskábyrgðin hefði staðið, að það vantaði ákaflega vigtuga hluti inn í fiskábyrgðina. Það hefði hann séð fyrir, og það hefði verið stefna hans flokks að hafa þetta öðruvísi, en ekki fengizt fram fyrir öðrum miður vitrum mönnum.

En ég var ekki að ámæla hv. d. fyrir meðferð málsins. Ég var bara að benda á, að við hefðum nógan tíma, og það var gott