10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (4080)

155. mál, lán Búnaðarbankans af gengishagnaði

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Í 2. gr. l. nr. 22 19. marz 1950, um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o. fl., er svo ákveðið, að gengishagnaður, sem myndast við það, að hrein gjaldeyriseign bankanna verður seld hærra verði eftir gengislækkunina, skuli renna í ríkissjóð og skuli þessari gjaldeyriseign sérstaklega varið til lánveitinga, eftir því sem nánar er ákveðið í þessari gr. laganna. En þar mælir svo fyrir enn fremur, að 2/3 af þessari upphæð skuli lánaðir Búnaðarbankanum, þ. e. a. s. ræktunarsjóði og byggingarsjóði, sem á vegum bankans starfa.

Ég ætla, að gjaldeyriseign íslenzkra banka erlendis hafi numið í lok febrúarmánaðar sem næst 42 millj, kr., en ábyrgðir á sama tíma um 15 millj. kr., og geri ég ráð fyrir, að þetta fé hafi verið innistandandi eða sem næst því, þegar lögin gengu í gildi, því að eftir því sem ég veit bezt, voru í bönkunum gerðar ráðstafanir til þess, að ekki yrði um yfirfærslur að ræða á meðan gengislækkunarfrv. lá fyrir þinginu, a. m. k. ekki að neinu ráði, nema skuldbindingar væru gefnar um, að greitt yrði á nýja genginu. Mér er hins vegar ekki kunnugt um það, hverju talið hefur verið endanlega að nettógjaldeyriseignin næmi, því að þar á móti mun hafa komið eitthvert gengistap, en það mun þó ekki hafa numið nema litlum hluta þessarar upphæðar. Nú er það svo, að bæði ræktunarsjóði og byggingarsjóði er þörf á að fá fé og eftirspurn eftir landbúnaðarlánum er mjög mikil. Verksvið þessara sjóða hefur verið rýmkað á þessum árum. Byggingarsjóði var falið að lána til bygginga á nýbýlum, jafnframt því sem byggingarsjóðurinn gamli var lagður niður, og ræktunarsjóði var með l. frá 1947 falið að lána til ýmissa framkvæmda, sem honum var ekki falið að lána til áður, og þess vegna — og þó að það hefði ekki verið — er eftirspurnin eftir þessum lánum mjög mikil, og því fer mjög fjarri, að sjóðir þessir gætu að öllu óbreyttu fullnægt eftirspurninni eftir þessum lánum. Þess vegna munu þessar ráðstafanir hafa verið gerðar hér á Alþ., svo að hægt yrði að bæta nokkuð úr þessum vandræðum. Hins vegar er nú komið fram á vor og framkvæmdir í sveitum landsins fara að hefjast, og þess vegna er mjög áríðandi fyrir bændur að geta fengið svör um það hjá þessum lánastofnunum, hvort þeir eigi lána von á þessu ári. En það hlýtur að vera mjög undir því komið, hvernig og hvenær þetta fé innheimtist, sem bönkunum er ætlað að fá samkv. þessum l. Þess vegna vildi ég, eins og skráð er hér á þskj. 622, í fyrsta lagi spyrja um, hvort bankinn væri búinn að fá það lán, sem mér skilst að eigi að veita honum samkv. l., og ef svo er ekki enn, hvort þá sé búið að afhenda ríkissjóði þessa fjárhæð, sem nettógjaldeyrishagnaðinum nemur.