10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (4085)

906. mál, byggingarkostnaður síldarverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Með l. nr. 93 frá 1942 var ákveðið að reisa nýjar síldarverksmiðjur, og var í l. veitt heimild til 10 millj. kr. lántöku til byggingarframkvæmda. 1944 var lántökuheimildin hækkuð í 20 millj., og var þá miðað við að reisa 10 þús. mála síldarverksmiðju á Siglufirði og 5 þús. mála á Skagaströnd. 1945 skipaði þáverandi ríkisstj. byggingarnefnd til þess að hafa framkvæmdirnar með höndum. 4. apríl 1946 áætlaði byggingarn., að verksmiðjurnar mundu kosta 26,3 millj. kr., og kvaðst byggingarn. þá sjá fyrir endann á framkvæmdunum. Í sambandi við það er lántökuheimildin hækkuð úr 20 og í 27 millj. kr. á því þingl. 30. nóv. sama ár, 8 mánuðum síðar, gerir byggingarn. aðra áætlun um byggingarkostnað og telur þá, að hann muni verða 38 millj. kr., eða 46% hærri en 8 mánuðum áður. Nú hefur hins vegar heyrzt, að raunverulegur stofnkostnaður þessara verksmiðja hafi orðið 42,5 millj. kr., eða 62% hærri en byggingarn. áætlaði að hann mundi verða aðeins þremur mánuðum áður, en verksmiðjurnar áttu að vera til og byggingarn. taldi fært, að þær yrðu til. Hér hefur auðsjáanlega verið um gífurleg mistök að ræða. Hefur annaðhvort verið um að ræða losaralegustu áætlunargerð, sem um hefur heyrzt hér á landi, eða eitthvert mesta sukk í framkvæmdum í sögu þjóðarinnar.

Fyrir þremur árum ákvað stjórn síldarverksmiðjanna að láta endurskoða reikningsskil byggingarnefndarinnar, og er þeirri endurskoðun lokið fyrir nokkru. Þessi fyrirspurn er fram borin til þess að fá upplýst, hvað fram hefur komið við þessa endurskoðun, og alveg sérstaklega, hvort það sé rétt, að ýmsir verktakar hafi fyrir forgöngu þeirra manna, er að málinu störfuðu fyrir stjórn síldarverksmiðjanna, fallizt á að endurgreiða rúml. 900 þús. kr. reikninga, sem áður höfðu verið greiddir. Fyrirspyrjendur hafa áhuga á að fá upplýst: Hafa komið í ljós alvarlegar misfellur í bókhaldi byggingarn.? Er það t. d. rétt, að amerískur radiogrammófónn, sem hafi farið til einstaklings í Reykjavík, sé talinn til byggingarkostnaðar síldarverksmiðjanna? Er það rétt, að til stofnkostnaðar Skagastrandarverksmiðjunnar sé talin m. a. amerísk heimilishrærivél, sem tekin var til nota hér í Reykjavík, en aldrei hefur til Skagastrandar komið? Er það rétt, að dollarayfirfærsla, sem færð var í dagbók sem einangrun á vatnspípum, hafi reynzt greiðsla til námsmanns í Ameríku? Er það rétt. að fylgiskjöl skorti um nokkrar greiðslur úr sjóði byggingarn., og sé svo, hvað ætlar ríkisstj. þá að hafast að í tilefni af þessu. Við fyrirspyrjendur væntum þess að fá glöggar upplýsingar um þetta mál.