16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (4116)

162. mál, Marshallaðstoð til vatnsorkuvirkjana

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, sem voru alveg greinileg og tvímælalaus um þau atriði, sem um var spurt. Ég vil þó sérstaklega þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að hann skýrði frá því, að ríkisstj. mundi á næstunni taka upp umræður um möguleika þeirra virkjana, sem ekki hefðu komizt að og ekki mundu njóta þessarar aðstoðar, sem hann lýsti yfir, að samkomulag hefði orðið um varðandi Sogsvirkjunina og Laxárvirkjunina. Ég legg megináherzlu á það, að hæstv. ríkisstj. geri allt, sem frekast er unnt til að þessar fjórar virkjanir, sem allar eru að mínu viti mjög vel undirbúnar, komist undir þessi ákvæði. Varðandi samkomulag flokkanna um það, að Sogið og Laxá skuli sitja fyrir og síðan skuli koma að áburðarverksmiðjunni, um það skal ég ekki ræða. Ég hef nokkra sérstöðu gagnvart því og skal ekki ræða það á þessu stigi málsins. Það má auðvitað alltaf deila um það, hvað eigi að ganga fyrir, þegar um takmarkaða möguleika er að ræða til þess að ráðast í umbætur og framkvæmdir nauðsynlegra mála. Ég held það ekki, að til þess beri brýna nauðsyn fyrir Reykjavík og Suðurlandsundirlendið að fá 3-faldaða orku Sogsins, og ég dreg í efa, að til þess beri brýna nauðsyn fyrir Akureyri að fá þá orkuaukningu, sem þar er fyrirhuguð. En ég bendi á, að ef þannig verður fram haldið, að stærstu stöðvarnar verði alltaf látnar ganga fyrir slíkri fyrirgreiðslu, hlýtur það náttúrlega að fara þannig, að strjálbýlið gefst upp. Fólkið fer þaðan til þeirra staða, þar sem byrlegar blæs, flýr frá skortinum til þeirra staða, sem alltaf eru látnir sitja fyrir, en við það skapast mikil vandamál, eins og við höfum fengið að kenna á hér í Rvík. Ég bendi á þetta og vara við þessu. Ég hef gert það áður og endurtek þær aðvaranir nú, ekki vegna þess, að ég vilji ekki líta á nauðsyn þessara staða fyrir bætta afkomumöguleika, heldur vegna hins, að ég held, að með þessu sé líka verið að reisa þessum stöðum hurðarás um öxl.

Ég þakka ráðh. fyrir að hafa lofað því, að mál þessara fjögurra virkjana verði tekið til rækilegrar athugunar í hæstv. ríkisstjórn.