16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (4118)

162. mál, Marshallaðstoð til vatnsorkuvirkjana

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Já, það var út af orðum hv. þm. N-Ísf. (SB). Ég vil taka undir þau og ég vænti þess, að ég eigi vísan stuðning hans um þau atriði. Ég er sammála honum um það, að það verði ekki síður að hugsa um virkjanir úti á landi, en þessar stóru virkjanir, þó að röð framkvæmdanna hafi verið ákveðin svo sem ég hef skýrt frá, og mér þykir mjög vænt um að eiga hans stuðning vísan í þessu máli.

Viðkomandi því, sem hv. þm. Barð. (GJ) spurðist fyrir um, vil ég taka fram, að það hefur ekki verið samið um neitt annað í ríkisstj. en þetta þrennt, sem ég minntist á, og þar af leiðandi hefur ríkisstj. engar ákvarðanir tekið um það, í hvaða röð aðrar virkjanir eigi að koma. Það, sem ég sagði um þetta atriði, voru almennar aths. Annars hefur engin röð verið ákveðin á þessum virkjunum, því að ekkert hefur verið samið um það í ríkisstj., þó að ég nefndi þessar virkjanir sem dæmi um aðkallandi virkjanir úti á landi, og mundu sjálfsagt fleiri verða teknar með, þannig að ég nefndi þetta aðeins sem dæmi, en ekki til þess að sýna fram á eða nefna dæmi um það, hvað ætti að taka fyrst. Um það hafa ekki verið teknar ákvarðanir, þó að ég viti, að sumar þessar virkjanir hljóta að verða mjög framarlega í röðinni.

Viðkomandi því, sem hv. þm. Barð. minntist á, þá vil ég segja það, að það er fyllilega rétt, sem hann sagði, að það var sett margt á þennan óskalista, sem birtist fyrir mörgum árum um framkvæmdir fyrir Marshallféð, en sannleikurinn er sá, að þessar framkvæmdir í sambandi við Sogið og Laxárvirkjunina ásamt byggingu áburðarverksmiðju hafa verið svo fjárfrekar, að hyggilegast mun vera að reyna að sjá þeim nokkurn veginn borgið, áður en teknar eru ákvarðanir um fleiri framkvæmdir. Hitt er augljóst mál, að ef fé verður fyrir hendi af þessum fjármunum til frekari framkvæmda, svo sem til ýmissa virkjana og annars, verða þær framkvæmdar, eftir því sem unnt verður.