16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í D-deild Alþingistíðinda. (4122)

162. mál, Marshallaðstoð til vatnsorkuvirkjana

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Varðandi þessa fyrirspurn get ég vísað til ræðu hæstv. landbrh., en út af umr., sem hér hafa orðið um fyrirhugaða sementsverksmiðju, þá vil ég segja það, að það væri náttúrlega æskilegt, að hún gæti fylgzt með þessum stóru fyrirtækjum, sem ákveðin eru. Veit ég þó ekki, hvort rétt er að taka hana á undan ýmsum smærri virkjunum, sem hér hefur verið rætt um. Ég er að vísu ekki nógu kunnugur þessum málum, en eftir því sem ég bezt veit, þá hefur þetta mál verið rætt á þeim grundvelli, að sementsverksmiðjan þætti svo gróðavænlegt fyrirtæki, að hægt væri að afla fjár til hennar með lántökum, sem hún gæti sjálf staðið undir, og þótt vextir af þeim lánum yrðu 4–5%, þá liggja þau gögn fyrir, að ef þau standast dóm reynslunnar, þá sker það atriði engan veginn úr.