16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í D-deild Alþingistíðinda. (4123)

162. mál, Marshallaðstoð til vatnsorkuvirkjana

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Það eru ekki mörg orð, sem ég þarf að segja út af ræðu hv. þm. Hafnf. Hann sagði, að byggingu sementsverksmiðju væri slegið á frest, en engin ákvörðun hefur verið tekin um það, þótt ég segði, að samningar hefðu verið gerðir um þessi þrjú fyrirtæki, Laxár- og Sogsvirkjun og áburðarverksmiðju, og að ekki yrði farið út í byggingu sementsverksmiðju, fyrr en þeim hefði verið séður farborði fjárhagslega. Raunar ætti aldrei að leggja út í fyrirtæki, fyrr en menn hafa séð því farborða með fé, en innan stundar sér maður með enn meira öryggi, hvað hægt er að gera. Og þó að ekki sé gefin yfirlýsing um það, að reisa skuli sementsverksmiðju á einhverjum ákveðnum tíma fyrir Marshallfé, þá þýðir það ekki, að slíkri framkvæmd sé slegið á frest, því að ekki hlaupa Marshallpeningarnir frá okkur, og þótt þeir ekki komi til, þá er vel hugsanlegt að reisa verksmiðjuna, því að svo hefur hingað til verið með framkvæmdir í þessu landi. En það er fleira, sem er aðkallandi, svo sem ýmsar virkjunarframkvæmdir, sem hér hefur verið drepið á, og vænti ég, að hv. þm. komi ekki á óvart, að fjármunir ríkissjóðs eru takmarkaðir til að hrinda þeim mörgu framkvæmdum áleiðis.