16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í D-deild Alþingistíðinda. (4127)

911. mál, áburðarverksmiðja

Fyrirspyrjandi. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Öllum hv. þm. er kunnugt, að hér hafa verið sett l. um byggingu áburðarverksmiðju. Eins er hv. þm. kunnugt um það, að sérstök mótspyrna hefur verið uppi gegn því, að við fengjum Marshallfé til slíkrar byggingar, af hálfu þeirra auðhringa, sem eiga köfnunarefnisverksmiðjurnar á meginlandi Evrópu. Nú vil ég í fyrsta lagi spyrja: Er búið að ná samkomulagi um það, að Íslendingar megi byggja áburðarverksmiðju fyrir Marshallfé, svo að tryggt sé, að slík framkvæmd verði ekki hindruð af pólitískum ástæðum? Í öðru lagi vil ég spyrja: Hafa verið gerðar ráðstafanir viðvíkjandi pöntunum á vélum til verksmiðjunnar? Þær pantanir þarf að gera löngu fyrir fram, og vil ég því spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún sé svo viss um, að hún megi byggja verksmiðjuna, að hún hafi þegar pantað þessar vélar, en það er vitað, að þeir, sem framleiða þessar vélar, hafa mikil áhrif á það, hvort bygging verksmiðjunnar verður leyfð eða ekki. Þetta tvennt vildi ég gjarnan að hæstv. ráðh. upplýsti.