12.01.1950
Sameinað þing: 18. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. er nú komið, að því er virðist, á sitt síðasta afgreiðslustig. Um það hafa verið talsverðar deilur, hvort við þessa 42 millj. kr. ábyrgð á fiski, áætlað miðað við tímabilið janúar til 15. maí, ætti að bæta nýrri ábyrgð á lifur, sem ég geri ráð fyrir, að geti numið 2–3 millj. kr. Ég hef áður lýst því r báðum d., að útvegsmenn eða samningan. þeirra æskti þess mjög, að lifur eða lýsi, sem hefur hríðfallið í seinni tíð svo afskaplega, að þess munu engin dæmi, að það yrði tekið á svo kallaðan frílista. Áður hefur því verið lýst í Nd., hvaða viðhorf fyrrverandi ríkisstj. hafði á þessum hlutum. Þar var því og lýst, hvaða reglur og hvernig útfærsla hefði verið á því höfð, að tilhlutun fyrrv. viðskmrh., að láta bátaútvegsmenn fá uppbót á vissar framleiðsluvörur sínar í gegnum það, sem kallað er frílisti. Ég þarf ekki að endurtaka neitt af því, sem ég hef sagt. Ég ætla, að það sé allt öllum hv. þm. ljóst, hvernig þetta hefur verið útfært. Í Nd. skýrði ég frá því á sínum tíma, að ég hefði ekki orðið var við, að neinn alþm. hefði vefengt þá skýrslu eða fundið að framkvæmdinni, eins og hún var sett í reglur af fyrrv. ríkisstj. Nú bar það til, að ég hygg vegna þeirrar sterku andúðar, sem menn af miklum misskilningi hafa á þessum svo kallaða frílista, að hér var borin fram á þinginu till. um að bæta lifrarmagni bátaflotans við ríkisábyrgðina, með það fyrir augum, að upp úr lifrinni hefðist kr. 1,30. Í dag skýrði ég frá því í Nd., hvað að mínum dómi væri erfitt að koma þessu í framkvæmd. Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. á þeirri lýsingu. Ég minntist á það, að lýsið er selt í ákaflega mismunandi tegundum og það yrði svo, eins og ég lýsti og tekið var undir af hv. þm. Ísaf. (FJ), að framkvæmd á slíku samkvæmt ábyrgðarákvæðinu, eins og það er nú orðað í frv., yrði illfær, ef ekki ómöguleg, og á þetta legg ég áherzlu. Fyrir utan það mundi sú framkvæmd óneitanlega hafa í för með sér óvenjulegan eftirlitskostnað, sem kemur sérstaklega til greina við ábyrgð á lifur undir þessum kringumstæðum, en alls ekki þarf til að taka, þegar reiknuð er út ábyrgð á vöru eins og hraðfrystum fiski og saltfiski, sem sýna má fram á með vörureikningum, að hefur verið afskipað undir eftirliti tollstjóra landsins á hverjum stað. Það er vitað, að útvegsmenn hafa engan veginn óskað eftir, að ríkissjóður gangi í hærri ábyrgð með því að bæta lifrinni við, þar sem þeir þvert á móti óska eftir öðru fyrirkomulagi í þessum efnum. Og þar sem liggur í augum uppi, að framkvæmd á þessum hlutum er svo að segja ómöguleg, þá er það ekki nema sanngjarnt, að orðið yrði við óskum útgerðarmanna, þar sem verðkröfur þeirra hafa verið settar langt niður fyrir það, sem þeir höfðu orðað í upphafi. Og þar sem að öðru leyti hafa ekki verið gerðar neinar nýjar ráðstafanir í frv. til að bæta þeirra hlut, þá sé það sanngjarnt að láta óskir þeirra ná fram að ganga hvað snertir bátalifrina og sleppa því að taka þetta inn í ábyrgðarsummu ríkisins, sem mér virðist líka vera nægilega há hvort sem er. Þetta hefur verið rætt í báðum d. þingsins, svo að segja til þrautar, og þó mætti mikið um það segja. En ég hygg, að fæstir af þm. hafi eiginlega góð skil á því, hvernig lýsisverzlun fer fram og hvernig allt það lýsi, sem safnað er saman utan af ströndinni, er sorterað o.s.frv. Mér þykir einkennilegt, að þeir, sem vilja endilega fá þessa ábyrgð, skuli loka augunum fyrir þessum örðugleikum, sem eru á framkvæmdinni, og þeim aukna eftirlitskostnaði, sem til greina kæmi, og þykist ég hafa fulla aðstöðu til að dæma um þetta betur en margir aðrir af þeim, sem hér hafa gerzt talsmenn fyrir ríkisábyrgð á lifur.

Ég skal svo ekki hafa hér um frekara mál, nema sérstök ástæða gefist til. Ég ætla að leyfa mér, í beinu framhaldi af því starfl, sem ég ásamt öðrum úr ríkisstj. hef haft með höndum undanfarið, milligöngustarf til þess að sætta útgerðarmenn við það hlutskipti, sem þeim kann að verða úthlutað af Alþ., að bera fram skriflega brtt., sams konar og ég flutti í Nd. og þar var samþ., um það að fella niður síðari málsgr. 1. gr. frv., en í henni ræðir um þessa ríkisábyrgð á lifur, sem ég áður drap á.

Að lokum vil ég aðeins drepa á það, að sá varnagli, sem settur var inn í Ed. samkv. brtt. frá hv. þm. Barð. (GJ) og hafði það að þýða, að tillit skyldi taka til gæða lifrarinnar og lýsisgæða, hann er nú horfinn, svo að sá ágalli, sem upphaflega var í þessari ábyrgðartill. eins og hún var flutt af hv. þm. V-Húnv. (SkG), er enn fyrir hendi, en hann er sá, að með því að leggja til, að eitt verð sé á hverjum lítra lifrar, hvar sem er, meðan það gildir, þá er sýnilega ekki stefnt að því að hafa mjög mikið samræmi hvað snertir gæði þeirrar vöru, sem hér um ræðir, og mundi það undir venjulegum kringumstæðum talið ófært, því að lifrin er svo misjöfn að gæðum, lýsismagni og öðrum góðum kostum, að hún á svo að segja ekkert saman nema nafnið eitt. Mætti þá eiginlega með sama rétti setja ríkisábyrgð á óæðri fisktegundir, sem veiðast hér við land, eins og í frv. er lagt til, að sé á góðfiskategundum, sem taldar eru upp í 1. gr.