15.02.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í D-deild Alþingistíðinda. (4132)

114. mál, erlendar fréttir útvarpsins

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Mér þykir trúlegt, að fyrirspurn sú, sem hér liggur prentuð á þskj. 311, veki nokkra undrun, kannske ekki örgrannt um, að ýmsir telji dálítið dónalega spurt, og vilji fá að vita, hvernig nokkrum lifandi manni geti til hugar komið, að einn eða annar af landsins æðstu ráðamönnum, sem allir séu þekktir að lýðræðisást og virðingu fyrir skoðanafrelsi, hafi geð til að standa í rexi út af því, hvað þessari litlu þjóð er sagt í fréttum. Nú er það hins vegar svo, að fólk er mjög farið að velta fyrir sér starfsemi þeirrar fréttastofu, sem rekin er af ríkisútvarpinu, og vakna af þeim hugleiðingum ýmsar grunsemdir, sem ekki eru eins og skyldi hollar fyrir demókratiskt mannorð ákveðinna háttsettra embættismanna.

Þegar athuguð er starfsemi þessarar fréttastofu, þá verður fyrst fyrir sú staðreynd, að allt, sem hún segir Íslendingum tíðinda af umheiminum, kemur frá einum stað, útvarpsstöð brezka ríkisins í Lundúnum, — einkaskeyti frá Kaupmannahöfn stöku sinnum og ein og ein fréttaklausa Stokkhólmsútvarpsins um eitthvað, sem gerist í Svíþjóð, eru ekki annað en lítilfjörlegar undantekningar, sem staðfesta regluna. En þessi staðreynd vekur furðu fólks, þegar það athugar hana í ljósi tveggja annarra staðreynda. Hin fyrri þeirra er sú, að í heiminum standa nú öndverð tvö meginöfl, grundvölluð á tvenns konar gerólíkum þjóðfélagsviðhorfum, keppandi um hylli mannkynsins, og brezka útvarpið er einmitt einn þýðingarmesti áróðurskraftur annars þessara afla, hefjandi sýknt og heilagt upp til skýjanna ágæti þess, óþreytandi við að sverta málstað hins.

Sú er svo hin seinni staðreyndin, að íslenzka ríkisútvarpið, og þar með auðvitað talin fréttastofa þess, á að vera algerlega hlutlaust, stjórnendur stofnunarinnar eru jafnvel stundum svo pössunarsamir í þessu efni, að þeir hefja strangar refsiráðstafanir gegn mönnum fyrir að segja í hljóðnemann þótt ekki sé nema fáein orð, er gætu á einhvern hátt túlkazt sem vinsamlegri einni hlið en annarri í einhverju deilumáli, en dæmi slíks eru mörg.

Með tilliti til alls þessa hygg ég það verði varla talið óeðlilegt, þó að fólk velti fyrir sér starfsemi fréttastofunnar og furði sig á því, að hún skuli eingöngu binda sig við fréttir frá London, sem samsvarar því, að hún skipi sér í sveit með öðrum aðilanum til áróðurssóknar gegn hinum í mesta deilumáli heimsins, í skoðanabaráttunni milli þeirra tveggja meginafla, sem áður voru nefnd. „Hvernig getur slíkt samrýmzt hinu göfuga hlutleysi stofnunarinnar?“ hlýtur fólk að spyrja. Fólk hefur, eins og áður segir, fengið reynslu fyrir því, að stjórnendum útvarpsins þykir mikils um vert, að í starfsemi þess sé ávallt þræddur hinu gullni meðalvegur hlutleysisins. Þessari reglu var svo rækilega fylgt, á meðan siðmenningin háði hina blóðugu baráttu við nazismann, að fréttum frá Berlín var alltaf ætlað ríflegt rúm í fréttatíma íslenzka útvarpsins, áróður hinnar þýzku útvarpsstöðvar var fluttur Íslendingum allt þar til hún þagnaði, og það jafnt þótt landið væri á þeim tíma hersetið af bandamönnum. Svona mikils þótti sem sagt um vert, að í engu yrði skert hlutleysi útvarpsins.

Nú eru aðrir tímar, — en samt er enn þá deilt í heiminum, tvö andstæð öfl heyja baráttu um hylli mannkynsins, — og þá virðist fréttahlutleysi íslenzka útvarpsins allt í einu farið veg allrar veraldar, — það er eins og það hafi orðið úti í hríðum hins kalda stríðs. Þær fréttir, sem útvarp Íslendinga flytur þeim af umheiminum, eru allar mótaðar að vilja annars aðilans þeirra tveggja, sem harðast deila, þær segja mikið um dugnað og árvekni amerískra hershöfðingja, rekja líka ýtarlega ágæti svonefndrar Marshalláætlunar, sömuleiðis vöxt og viðgang brezkra kola, — en þegar aftur á móti minnzt er á málstað hins aðilans, sem samanstendur af tveim fimmtu hlutum mannkynsins, þá er það sjaldnast annað en fréttir af meira eða minna svívirðilegum réttarhöldum, sumar kryddaðar dularfullum sögum um voðaleg meðul, sem sakborningar séu við þessi tækifæri neyddir til að taka inn með þeim afleiðingum, að þeir verði síðan reiðubúnir að játa á sig næstum hvern þann stórglæp sem vera skal. Þessir tveir fimmtu hlutar mannkynsins einbeita nú orku sinni að því að byggja upp nýtt þjóðfélagsform, en íslenzka ríkisútvarpið segir aldrei neinar fréttir frá því starfi. Af fréttum íslenzka útvarpsins verða yfirleitt ekki dregnar aðrar ályktanir en að þarna sé um að ræða víðtæk samtök vondra manna, sem hafi það eitt fyrir stafni að keyra dóma yfir góða menn á grundvelli áðurnefndrar meðalaframleiðslu. Fréttahlutleysi íslenzka útvarpsins er sem sagt ekki lengur nema nafnið. Og fólk veltir því fyrir sér, hverju þetta sæti. Og það getur ekki varizt þeirri grunsemd, að í þessu efni hafi verið sett eitthvert það boð eða bann, sem réð úrslitum um hlutleysið. En með tilliti til áðurnefndrar reynslu um afstöðu útvarpsstjórnendanna, sjálfra, þykir fólki ótrúlegt, að nokkurt slíkt boð eða bann hafi komið frá þeim. — Og þá berast böndin að þeim aðilanum, sem ofar er settur sjálfum stjórnendum útvarpsins, ríkisstjórninni, eða réttara sagt ráðherra þeim, sem hefur sérstaklega með útvarpið að gera, menntamálaráðherra. — Sá orðrómur, sem kominn er á kreik út af þessu máli, er vægast sagt ekki sem hollastur fyrir demókratískt mannorð íslenzku ríkisstjórnarinnar.

Ég hef nú ekki lengri tíma til að gera grein fyrir tildrögum til þeirrar fyrirspurnar, sem hér liggur prentuð á þskj. 311, en ég vona, að þessi fáu orð hafi gert hv. þm. ljóst, hver er tilgangur fyrirspyrjandans, sem sé sá að reyna að láta eitthvað það af sér leiða, er gæti orðið til að kveða niður þrálátan orðróm fólks og vaxandi grun um, að hæstv. ríkisstj. og þá auðvitað sérstaklega þeim hæstv. ráðh., sem hefur yfir útvarpinu að segja, sé farið að fipast í lýðræðinu og trúnni á hinna gullnu reglu um frelsi einstaklinganna til að mynda sér skoðanir án vilhallrar íhlutunar hins opinbera.