12.01.1950
Sameinað þing: 18. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Það er búið að þrautræða þetta mál, en ég get ekki stillt mig um að gera grein fyrir afstöðu minni út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði. Hann hefur endurtekið hér í Sþ. það, sem hann sagði í Nd. um málið, og það er mjög öflugur áróður af hans hendi út af þessu ákvæði, að ríkissjóður taki ábyrgð á lýsisverðinu. Það er aðallega eitt, sem hæstv. ráðh. færir þessu til foráttu, og það er, að þetta sé svo erfitt í framkvæmd. Í þessu sambandi vil ég undirstrika það, að hér er aðeins um vetrarvertíðina að ræða. Það er venja hér ó vetrarvertíðinni að greiða fyrir mælda lifur sama verð yfir alla vetrarvertíðina, a.m.k. í hverri veiðistöð. Þetta er atriði, sem áhætt er að byggja á. Ég veit, að það er einhver vandi í sambandi við að ákveða, hvað hátt aflaverðið eigi að vera í sambandi við lýsisgæðin, til þess að hægt sé að ætlast til þess, að þeir, sem taka á móti lýsinu, greiði út kr. 1,30 fyrir lítrann. En ég fullyrði, að það er sjálfsagt ekkert vandasamara að ákveða þetta, en að ákveða, hvaða verð eigi að vera fyrir allar mögulegar fisktegundir til þeirra, sem taka inn fisk í hraðfrystihúsin. Það er hvort tveggja nokkuð vandasamt, en ekki get ég skilið, að það sé nokkur munur þar á vanda, og því sýnist mér vera hægt að fara þá leið að ákveða lágmarksverð á lifrinni kr. 1,30 yfir vetrarvertíðina. Síðan verða stjórnarvöldin að gera sér grein fyrir því, hvert ábyrgðarverð útflytjendur verði að fá, til þess að hægt sé að ætlast til þess, að menn taki lifrina út fyrir þetta verð. Alveg eins er þetta með hraðfrysta fiskinn og saltfiskinn. — Þetta vildi ég aðeins taka fram út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði, þegar hann talaði um, að lifrin væri svo misjöfn. Það mun yfirleitt í verstöðvum vera greitt visst verð fyrir hvern lítra og það sama yfir alla vetrarvertíðina, og hefur ekki fram að þessu verið gerður munur á því, hvernig lifrin er á þeim tíma. Þetta sýnist mér stórt atriði. Annað atriðið vildi ég benda á, og það er þetta, að ef nú væri tekinn upp sá háttur að ábyrgjast ekki lifrina, heldur yrði frílistinn látinn ná yfir þorskalýsið, þá er hætta á, að það ástand geti skapazt, að menn viti ekkert, hvar þeir standa með lifrarverðið, og nú er gefið mál, að sumir selja lifrina eftir hendinni, og hvaða verð eiga þeir að fá fyrir lifrina? Það er ekki þannig, að menn geti geymt sína lifur. Þeir verða að láta hana strax, annars eyðileggst hún. Nú mundi verða langur tími þangað til ríkisstj. gæti gert sér grein fyrir því, hvað mikið hún má leggja ofan á samkvæmt verðinu á frílistanum. Af þessu skapast svoleiðis óvissa, sem enginn veit, hvernig kemur út, og útvegsmenn verða kannske fyrir tapi, sem þeir verða ekki, ef þeir láta lifrina strax. Og eins er með hlutarsjómenn. Þeir vita ekki, hvar þeir standa, og það veit enginn, hvað út úr því dæmi kemur, enda í sumum tilfellum, að álagið, sem beðið er eftir, þangað til frjáls gjaldeyrir kemur, lendir hjá útvegsmönnunum sjálfum eða verzlunarmönnunum. Þetta er það, sem ríður baggamuninn í mínum huga um það að hallast að því, þó að ég telji það neyðarúrræði, að vera með því að taka þessa ábyrgð, því að það hefur þann kost, að menn vita strax, ef þeir hafa þessa vöru til að láta af hendi, hvar þeir eru staddir í þessum efnum. Það er sjálfsagt á báðum leiðunum hægt að finna einhverja erfiðleika á framkvæmdinni, en ég vildi aðeins með þessum örfáu orðum gera grein fyrir minni afstöðu.