17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að vekja athygli á því, að það eru nú aðeins 6 dagar til jóla, og enn þá eru ekki komin fram nein frv. frá hæstv. ríkisstjórn, varðandi þau vandamál, sem fram undan eru óleyst, og þá er sérstaklega þar að geta málefna sjávarútvegsins. Fiskábyrgðin, sem lögfest var í fyrra, fellur úr gildi nú um næstu áramót, og enn fremur þær ákvarðanir um tekjuöflun til þess að standa undir fiskábyrgðinni, sem eru í dýrtíðarl. — Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir þessu, að enn þá skuli ekki koma neitt fram af stjfrv. í þessum efnum. — En aðaltilefnið til þess, að ég stóð upp, var það, að ég vildi spyrja hæstv. forsrh. um það, sem ég veit, að muni vera ofarlega í hugum margra hv. þm., hvenær þess er að vænta, að fram komi frv. frá hæstv. ríkisstjórn um þetta efni. Kemur það í dag, eða kemur það ekki í dag? Og ef það kemur ekki í dag, hvenær kemur það þá? Mér finnst, að hv. þm. eigi rétt á að fá að vita afdráttarlaust, hvað fyrirhugað er í þessu sambandi, og vildi fara fram á það við hæstv. forsrh., að hann gæfi þinginu um þetta upplýsingar.