13.01.1950
Neðri deild: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

51. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. mínu við þetta frv. — eða minni hlutans —, er ég andvígur 1. gr. þess. Þarf eigi að lengja umræðurnar, því að þetta mál hefur verið rætt ýtarlega áður, og mun ég því eigi gera það hér mikið frekar að umtalsefni, en orðið er. — Aðalinnihald frv. er þetta, að tolla skuli innheimta með tvenns konar álagi, vörumagnstoll með 200% álagi og verðtoll með 65% álagi. En um þessa aðferð hefur verið ágreiningur, og þarf ekki að fara nánar út í það. Hins vegar vil ég leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við 1. gr. frv., svo hljóðandi: „Í stað orðanna „Frá 1. jan. 1950“ komi: Í janúar- og febrúarmánuði 1950.“ Ég vil, að þetta orðist svo. Á hinn veginn hefur það verið orðað af misskilningi. Liggur nú fyrir brtt. frá hæstv. fjmrh. um, að aftan við 4. gr. bætist, að l. gildi til ársloka 1950, en ég vil láta það koma fram, að heimta eigi inn tolla þessa fyrir þann tíma, sem liðinn er af janúarmánuði. Hitt skal ég ekki segja um, hvort það sé löglegt. — Ef þessi brtt. mín yrði samþ., mundi það hafa í för með sér þá breyt., að í stað þess, að tollaálögurnar væru látnar gilda allt árið, þá mundi sami háttur á verða hafður og með fiskábyrgðina, að þessir tollar stæðu aðeins fyrir janúar- og febrúarmánuð. Hér í þessari hv. d. hefur okkur verið lofað af hálfu hæstv. ríkisstj., að nýjar leiðir skyldu farnar í febrúarmánuði. En við vitum ekki um það kraftaverk enn þá. Á hinn bóginn er trúin á það mikil, og því álít ég, að samþykkja. megi þessi gjöld. Ég álít því eðlilegt að láta þetta gilda í janúar og febrúar aðeins, því að þeir, sem vilja fara nýjar leiðir, munu geta fallizt á það, og ég vona því, að brtt. mín verði samþ. Annars álít ég, að ekki eigi að halda þessum tollum áfram, og þegar ábyrgðin á fiskinum á að falla brott, þá er engin meining í því að halda þungum tollaálögum áfram.

Ég óska þess svo, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir till. minni, og afhendi honum hana. (Forsrh.: Á að skilja þetta sem yfirlýsingu um, að sósíalistar muni fylgja nýjum leiðum, sem farnar kunna að verða?) Það fer nú eftir því, hverjar þessar leiðir eru. (Forsrh.: Eða á að koma heimsendir 1. marz?) Hvers konar heimsendir?