17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér er það nokkurt undrunarefni. að hv. 1. þm. S-M., sem sjálfur hefur verið í ríkisstjórn undanfarin þrjú ár, skuli láta í ljós undrun sína yfir því, að ekki skuli vera komin fram frv. nú þegar frá ríkisstj. um það, hvernig eigi að ráða bót á þeim vandkvæðum, sem við er að etja, og þá sérstaklega þeim, sem hann gerði aðallega að umræðuefni, þ. e. vandræðum sjávarútvegsins. Ég hefði talið að hv. 1. þm. S-M. væri svo kunnugur málum, að hann út af fyrir sig gæti ekki undrazt það, að það er ekkert barnameðfæri að bera fram till. að lítt athuguðu máli til þess að ráða fram úr vandamálum eins og þeim, sem hér er um að ræða. — Hv. þm. Str. spurði mig um þetta í hv. Ed., ég held í fyrradag, hvenær væri von á frv., eins og hv. 1. þm. S-M. spurði nú um. Ég svaraði þá á þá leið, að áður en hægt er að kveða upp úr um það, þarf tvennt að liggja fyrir. Í fyrsta lagi, hverjar eru kröfur útvegsmanna, og í öðru lagi hitt; hvort ríkisstj. treystir sér til þess að færa þær kröfur inn á Alþ. óbreyttar eða með þeim breyt., sem kynnu að fást á þeim með samningum við útvegsmenn, og til að samræma slík ákvæði, í einu eða öðru formi, gjaldgetu ríkissjóðs. Þessu svaraði ég fyrir tveimur dögum. Þann dag, 15. desember, að morgni, að ég hygg kl. sex til sjö, hafði lokið aðalfundi íslenzkra útvegsmanna. En samt sem áður gerði ég þeim nú boð, sem þann fund sátu, fyrir hádegi þann dag að koma á minn fund og á fund hæstv. atvmrh. Og við sátum með þessum mönnum á fundi allan daginn og fram á nótt, til þess að ræða við þá um þeirra óskir og kröfur. — Nú veit hv. þm. S-M., að málið er tvíþætt. Annars vegar eru þessar kröfur framleiðendanna, og þá fyrst og fremst bátaútvegsins, en hins vegar eru kröfur frystihúsanna, og þær eru engu síður örðugt mál en fyrr taldi liðurinn. Og ég vil segja hv. 1. þm. S-M. það í öllu bróðerni, að kröfur frystihúsanna liggja ekki fyrir ríkisstj. enn þá. Ég hef að vísu fengið munnlega frásögn um það, að þeir í aðalatriðum fari fram á allverulega hækkun. En á hverju þær óskir eru reistar eða hversu háar þær eru eða hvernig þær koma út til greiðslna úr ríkissjóði, um það liggur ekkert fyrir enn þá. — Ég tók eftir því í dag, þó að það komi ekki beinlínis við hv. 1. þm. S-M., að hans aðalblað segir, — og kannske réttilega — að það sé ekki von, að Alþ. geti tekið tillit til tillagna, fyrr en þær liggi fyrir. Ég hygg að þessu góða blaði hafi nú stundum orðið á að segja eitthvað, sem sé fjarstæðara en þetta. En alveg á sama hátt og hæstv. Alþ. getur ekki tekið afstöðu til slíkra till. fyrr en þær liggja fyrir, þá veit ég, að hv. 1. þm. S-M. viðurkennir einnig, að ríkisstj. getur ekki gert sér grein fyrir, hvaða boð hún þarf að flytja Alþingi eða hvaða till. hún þarf að leggja fyrir Alþingi, fyrr en hún veit hvað það er, sem útvegurinn annars vegar og frystihúsin hins vegar fara fram á. Ég get sagt hv. þm. það, að það getur vel verið, að þær kröfur verði svo alvarlegar, að það verði ekki auðið að bera fram bráðabirgðalausn á málinu. Það getur vel verið. En ég verð að sjá þessar till., áður en ég get kveðið á um það. Ég veit, að hv. 1. þm. S-M., svo stjórnvanur sem hann er játar, að þetta sé eðlilegt. — Ég vil einnig leiða athygli þessa hv. þm. og hv. þingmanna að því, að á undanförnum árum hefur ævinlega verið langur aðdragandi að lausn þessa máls á Alþ. Og ég hygg t. d., að á síðasta hausti eða um síðustu áramót þá hafi fyrst nefnd frá öllum flokkum, eða a. m. k. frá stjórnarflokkunum, fjallað um kröfur og óskir útgerðarmanna í margar vikur — margar vikur — áður en ríkisstj. taldi sig færa um að leggja fyrir Alþ. sínar till. Og hvernig geta menn búizt við því, að við getum lagt fram till. okkar til Alþ. fyrirvaralaust og jafnvel áður en við höfum séð, hvers útvegsmenn krefjast, úr því að fyrrv. hæstv. ríkisstjórn þurfti margar vikur til að gera samninga við útvegsmenn, áður en hún gat gert sér grein fyrir, hvers hún taldi nauðsynlegt að krefjast af ríkissjóði til þess að leysa málið? Mér finnst ekki, að maður, sem hefur átt sæti í fyrrv. ríkisstjórn og á langa þingsögu og ráðherradóm að baki, geti með nokkurri sanngirni mælzt til þess, að við leggjum þessar kröfur fram, áður en við vitum, hvað útvegurinn vill. Sérstaklega getur maður ekki borið þetta fram sem kröfu, sem setið hefur í ríkisstjórn, sem þurfti margar vikur til þess að hugsa sig um, áður en hún gat borið fram frv. um það á Alþ., og reyndi að semja við útveginn, áður en ríkisstjórnin lagði málið fyrir Alþ. Og ég vil vekja athygli hv. þm. og hv. þd. á því, að enda þótt þessi langi aðdragandi væri að málinu á síðasta vetri, þá var málið alls ekki fullleyst fyrir því, þó að löggjöfin um það væri búin að ganga gegnum Alþ. og löggjafinn væri búinn að ganga frá málinu. Þvert á móti kostaði það mikla fyrirhöfn fyrir ríkisstj. og margar millj. kr. úr ríkissjóði umfram það, sem löggjafinn hafði tilskilið og samþ. til þess að koma útveginum af stað, eftir að búið var að samþ. um þetta löggjöf. Og til þess að lengja þetta ekki meira, skal ég segja aðeins það, að svo alvarlegt sem ástandið var fyrir ríkissjóð og þjóðarheildina þá, er það þó að mínu viti margfalt alvarlegra í dag. Ég tel, að sú mynd, sem ég sé framan í, eftir að ég hef fengið þá aðstöðu, sem ríkisstjórn hefur til þess að rannsaka kringumstæður eftir beztu heimildum, sé svo alvarleg, að það verði ekki hjá því komizt, að ríkisstjórnin, eftir að hún er búin að draga saman nægileg gögn, til þess að teikna þessa mynd svo ljóslega sem auðið er, komi fram fyrir Alþ. og láti það heyra, hvernig ástandið er. Og það er miklu verra ástand en ég hafði búizt við. Það krefst miklu stærri aðgerða að leysa þetta mál heldur en ég hafði gert ráð fyrir. Og hv. fyrirspyrjandi sem sjálfur hefur verið í fyrrv. hæstv. ríkisstjórn, hlýtur að hafa haft gleggri hugmynd um þetta en ég. Og því hlýtur honum að vera það ljóst, að það er ekki sanngjarnt að fara fram á það við núv. ríkisstj., að hún án allrar athugunar flytji hér inn á þing einhverjar till., sem geti leyst málið í bráð og lengd. Ríkisstj. vinnur að þessu máli núna dag og nótt, og engin ónauðsynleg bið er á þessu starfi hennar. En ef ástandið þykir svo alvarlegt, að við treystum okkur ekki til þess að bera fram till. um bráðabirgðalausn á málinu, þá verður meiri töf á málinu en ella hefði orðið.