13.01.1950
Efri deild: 33. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

51. mál, tollskrá o.fl.

Forseti (BSt):

Ég er undrandi á ræðu hv. 4. landsk., ekki sízt af því, að hann var um skeið sjálfur forseti þessarar hv. deildar. Hann segir, að það hafi ekki verið boðað fyrr en á þessum fundi, að málið væri á dagskrá. En á 31. fundi deildarinnar var þetta annað málið á dagskránni. Til þess fundar var boðað á venjulegan hátt. Í lok þess fundar var boðað, að málið yrði tekið til 2. umr. á nýjum fundi strax að loknum þeim fundi. Ýmsir dm. munu ekki hafa vitað, að málið yrði tekið til 2. umr., það er rétt. En hverju var um að kenna? Ég veit, að einn hv. dm. er það lasinn, að hann er ekki fær um að vera hér, hv. þm. Seyðf. Enginn annar dm. hefur boðað forföll. Og þingmenn eiga að sækja fundi og vera viðstaddir, ella láta forseta vita. Þeir mega því sjálfum sér um kenna, sem ekki eru viðstaddir. Þegar hv. 4. landsk. var forseti þessarar deildar, hélt hann oft fundi hvað eftir annað með sama hætti og ég hef nú gert. Ég sé því ekki annað, en meðferð málsins sé rétt samkvæmt þingsköpum, úr því að afbrigði hafa verið veitt. Um efni þessa frv. verður ekki rætt frá þessum stað.