17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það þýðir náttúrlega ekki að fara í langar umr. um þetta. En mér finnst vera framúrskarandi lítil heilindi — svo ekki sé meira sagt — í því, að maður, sem nýkominn er úr ríkisstj., skuli telja það undrum sæta og ítreka það, að núv. ríkisstj. skuli ekki hafa lagt sínar till. um lausn á þessu máli fyrir þingið. — Hv. 1. þm. S-M. segir, að það sé merkilegt, ef ég hafi ekki verið jafnkunnugur þessum málum áður en ég kom í ríkisstj. eins og ég er nú, eftir að ég hef fengið að tala um málið við trúnaðarmenn ríkisstj. í viðkomandi málum. Hann veit sjálfur, hv. 1. þm. S-M., að ríkisstj. hefur miklu betri aðgang til þess að rannsaka frumheimildir í sambandi við mál heldur en þm. hafa — og líka miklu meiri skyldur til þess. En ef þetta er svo einfalt og ef hann veit, hvert ástandið er í þessum efnum, mundi hann þá vilja draga fram, í allra stærstu dráttum, hvernig ástandið er? Ef hann telur vítavert, að ég, sem ekki var í ríkisstjórn, hafi ekki haft nægan kunnugleika um þessi mál, og telur, að mér hafi borið skylda til að hafa þennan kunnugleika, þá langar mig til þess að sannprófa, hvort hann hefur þessa þekkingu, hvort hann getur dregið upp mynd, í allra stærstu dráttum, af því, hvernig komið er í þessum málum og hver breyt. hefur orðið, við skulum segja á búskap ríkissjóðs og atvinnulífi landsmanna bara yfir það tímabil, sem hann hefur átt sæti í ríkisstj. Það væri sjálfsagt þægilegt fyrir mig að fá þetta svona til leiðbeiningar og viðbótar þeim hugmyndum, sem eru að verða æ gleggri fyrir mér um það, hvernig ástandið er í þessum málum í dag. — Og það nær náttúrlega ekki nokkurri átt að tala um það, að núv. ríkisstjórn hafi brugðizt skyldu sinni með því að vera ekki búin að leggja fram fyrir þingið till. um þessi mál nú þegar. Og hv. 1. þm. S-M. veit, að hann sjálfur og öll fyrrv. hæstv. ríkisstjórn, ásamt öllum hennar trúnaðarmönnum, þurfti að semja við hinn aðilann fyrst í margar vikur, áður en þeir, sem mynduðu fyrrv. hæstv. ríkisstjórn, lögðu fram frv. að löggjöf um þessi mál, — og svo þurfti enn fremur að semja í margar vikur við atvinnurekendur um þessi mál, eftir að löggjöfin um þau hafði verið samþ. Er það ekki rétt hjá mér, að hæstv. ríkisstjórn hafi þurft að semja við útveginn í margar vikur og verja mörgum millj. kr. úr ríkissjóði til þessara mála umfram það, sem ætlað var áður, að gæti fullnægt þeim megintilgangi ábyrgðarlaganna að hrinda útgerðinni úr vör og sjá um, að atvinna landsmanna héldist í fullum gangi? En ef fyrrv. ríkisstj. þurfti fyrst margar vikur til samninga, áður en hún samdi löggjöfina, og auk þess margar vikur til samninga, eftir að l. voru sett, hvaða sanngirni er þá, að við berum fram okkar till., áður en við vitum, hvað það er, sem nú er aðallega farið fram á? Þetta er samningsatriði. Það er í mörg ár búið að ríkja það ástand í landinu, að framleiðendurnir koma til ríkisstj. og semja við hana um sín kjör, enda sagði einn úr fyrrv. ríkisstj.: Ástandið er þannig, að það er ekki svo mikið áhugamál fyrir atvinnurekendur, hvað síldin er í Póllandi eða Danmörku, aðaláhugamálið er, hvað síldin er í stjórnarráðinu. — Þetta veit hv. þm. betur en flestir aðrir, af því að hann hefur verið í stjórn undanfarin erfiðleikaár, og þá á hann sízt að vera ósanngjarn í kröfum við minnihlutastjórn, sem er að glíma við erfiðleikana. Ég hef ekki óskað eftir minnihlutastjórn. Við sjálfstæðismenn höfum talið, að betra hefði verið, að stj. væri studd af þeim þremur flokkum, sem að fyrrv. stj. stóðu.

Ég veit það alveg, að ef hv. þm. segir, að ríkisstj. hefði, strax og hún settist að völdum, átt að finna hvöt hjá sér til að rannsaka, hvað útvegurinn þyrfti, án tillits til þess, hvað þessir aðalfundir þeirra væru að fara fram á, — að hann, svo skyldurækinn maður, hefur verið búinn að gera sér grein fyrir þessu öllu, þegar hann fór úr stj. 6. desember, þegar hann gerir þá kröfu til mín, áður en útgerðarmenn hafa talað við mig.

Hann segir, að það komi ekkert málinu við, hvað þessir fundir hafi farið fram á. Nei, stj. átti að gera sér sjálfstæða grein fyrir því. Sá, sem vill leysa þetta mál fyrir jól, og sá, sem vissi þá geigvænlegu örðugleika, sem eru á lausn málsins, og sá, sem var ráðh. og ætlaði að leysa málið fyrir jól og þekkti þessa geigvænlegu örðugleika, hlýtur að hafa verið búinn að gera sér grein fyrir, hvernig átti að leysa málið 7. desember, ef hann ætlast til, að stj., sem tók við 6. eða 7. desember, gæti undireins komið með till. Þá var líka farið að líða að jólum, sérstaklega í hugum þeirra, sem muna það, að á síðasta þingi þurfti margar vikur, áður en málið var leyst. Ef það er sanngirniskrafa til núv. stj. að gera þetta sjálfstætt, án þess að útgerðarmenn legðu fram till. sínar og óskir, þá er það einnig sanngirniskrafa til fyrrv. stj., sem þurfti margar vikur til að leysa málið.

Að lokum vil ég segja tvennt. Fjmrn. er nú að undirbúa frv. um endurnýjun á tekjuöflun dýrtíðarlaganna, því að sjálfsögðu þarf ríkissjóður þeirra með. Það væri a. m. k. undarlegt ástand, ef það ætti 2.–5. janúar að greiða lægri tolla en verið hafa 1949 og sennilega lægri en yrðu 1950. Ég tel því, meðan ekki er endanlega ráðið fram úr því, eftir hvaða leiðum reynt verður að leysa vandræði sjávarútvegsins, að sjálfsagt sé að endurnýja þá tekjustofna, sem stóðu undir útgjöldum dýrtíðarlaganna, að svo miklu leyti sem þeir eru inni í dýrtíðarlögunum. Ég býst við, að það frv. sé komið fram eða sé nú á tröppunum.

Ég vil í öðru lagi segja það, að við verðum að gera okkur grein fyrir, að ástæðan til þess, að þetta mál liggur ekki eins skýrt fyrir nú og í fyrra, er sú, að nú er allt miklu seinna á ferðinni í þessu efni. Þingið kom seint saman, og þá fór nokkur tími í stjórnarmyndunina. Ég ætla ekki að troða illsakir við neinn, en það voru ekki við sjálfstæðismenn, sem beittum okkur fyrir því, að það samstarf rofnaði, sem var um fyrrv. stj. Ef það hefði ekki rofnað, hefði þing komið miklu fyrr saman, eins og til stóð, og þá væri lausn þessa máls lengra komin. Ég endurtek það í tilefni af lokaorðum hv. þm., að ríkisstj. verður að fá að sjá heildarmyndina af ástandinu, áður en hún treystir sér til að koma til þingsins og segja: Við viljum fara troðnar slóðir í bili. Þeir, sem vilja glíma við þennan vanda, verða að fá að athuga málið gaumgæfilega, en ekki standa í deilum, eins og við værum í kosningunum enn þá. Ég sé, að hv. þm. er mér sammála, hvað sem hann segir.