07.12.1949
Efri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

22. mál, gengisskráning o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að gera grein fyrir afstöðu mínni til þessa frv. Frv. er þegar orðið að l. og þegar komið til framkvæmda. Það er aðeins beðið um staðfestingu Alþ., sem vitaskuld er fyrir fram gefin. En það er ekki hægt að taka afstöðu til þessarar ráðstöfunar, um skráningu gengis íslenzku krónunnar í samræmi við sterlingspundið, út af fyrir sig. Þetta er afleiðing þeirrar viðskiptapólitíkur, sem rekin hefur verið undanfarið, og það er enn fremur afleiðing af þessari pólitík, að verðfelling sterlingspundsins og annars gjaldeyris, sem fylgir sterlingspundinu, hefur orðið slíkt áfall fyrir íslenzkan almenning og raun er á orðin og eftir á að koma betur í ljós seinna. Þetta hefur í för með sér mikla launalækkun fyrir alla launþega landsins. Það er ekki hægt að segja um það með vissu, hve mikið það er, en tekjurýrnun almennings mun nema mörgum tugum milljóna króna á ári. Spurningin verður þá, hverjir eigi að bera þessar byrðar. Sósfl. getur ekki fallizt á og telur fráleitt, að hið vinnandi fólk eigi að bera þær allar eða meginþunga þeirra. Hann telur þess vegna, að ef sú leið er farin að láta krónuna fylgja sterlingspundinu, þurfi að gera aðrar ráðstafanir um leið, t.d. sem lágmarksráðstöfun að afnema bindingu kaupgjaldsvísitölunnar við 300 stig. Um þetta hefur þegar verið lagt fram frv. hér á Alþ. Hins vegar er ekki hægt að nema þessi brbl. úr gildi og hækka þar með krónuna aftur, nema þá að gerðar verði um leið allvíðtækar ráðstafanir. Sem sagt, til málsins er út af fyrir sig ekki hægt að taka afstöðu, og ég mun þess vegna sitja hjá við þessa atkvgr.