12.12.1949
Neðri deild: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

22. mál, gengisskráning o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv. er í samræmi við brbl., sem sett voru um sölu erlends gjaldeyris, þegar gengi pundsins var fellt í september s.l., og var þá lagt til, að krónan fylgdi pundinu, eins og hún hafði gert áður. Það var sjáanlegt þegar í upphafi, að útflutningurinn gat ekki risið undir því, að krónan fylgdi dollar eða réttara sagt hækkaði á móti pundinu sem svaraði því, er gengisbreytingu þess nam. Það var öllum ljóst, að til þess að nokkrir möguleikar væru á því að halda uppi útflutningi og fá markað fyrir útflutningsvörur, þá var nauðugur einn kostur í fyrsta lagi að geta lækkað kostnað við framleiðslu þeirra sem svaraði gengisbreytingunni, en mönnum var líka ljóst, að það var nógu erfitt að gera framleiðsluna samkeppnishæfa, þó að þetta bættist ekki við. Þess vegna munu flestir hafa verið sammála um, að það var ekkert annað að gera fyrir fyrrv. ríkisstj. en láta krónuna fylgja pundinu, sem hún líka gerði, og er hér farið fram á staðfestingu á þeim brbl.

Ég tel óþarft að fjölyrða um þetta. Þetta mál er raunverulega afgreitt, og verður skrefið ekki stigið til baka, svo að umræður mundu ekki breyta mikið gangi málsins. Legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.