16.01.1950
Neðri deild: 30. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

22. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Nál. um þetta frv. liggur hér fyrir á þskj. 97, frá meiri hl. fjhn., sem mælir með því, að frv. verði samþ. Einn nm., hv. 2. þm. Reykv., taldi sig ekki samþykkan frv. Hins vegar hef ég ekki orðið var við, að frá honum hafi komið sérstakt nál. Ég sé ekki ástæðu til að ræða málið, en vil aðeins geta þess, að ég tel, að ekki hafi verið um annað að ræða, en að gefa þessi brbl. út, þegar breyting varð á gengisskráningu sterlingspundsins, því að það var óhjákvæmilegt fyrir okkar að láta skráningu íslenzku krónunnar fylgja sterlingspundinu.