22.11.1949
Efri deild: 3. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða brbl., útgefin í tilefni þess, að í l. um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna frá 29. des. 1948 eru ekki skýr ákvæði um það, hvort fulltrúar útgerðarinnar, sem eiga að vera með í ráðum varðandi verðlagningu á vörum útgerðarinnar, hafi atkvæðisrétt eða bara tillögurétt á fundum viðskiptanefndar um þessi mál. Stj. taldi nauðsynlegt, að þetta væri skýrt orðað, og útvegsmenn óskuðu að hafa full réttindi á fundum n., er þessi mál væru til meðferðar. Því voru 2. júlí í sumar gefin út brbl. um þetta, og vænti ég þess, að hv. d. sé sammála um það, að rétt hafi verið að gefa útvegsmönnum þennan rétt. Ég þarf ekki að skýra málið frekar, en legg til, að því, að lokinni þessari umr., verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.