14.11.1949
Sameinað þing: 0. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 1. kjördeildar (Bernharð Stefánsson):

1. kjördeild hefur athugað kjörbréf þeirra þm., sem eiga sæti í 3. kjördeild, og hefur ekki fundið neitt athugavert við þau, enda engar kærur legið fyrir um neina af þessum kosningum. Leggur kjördeildin því til, að kosning nefndra þm. sé tekin gild.

Kjördeildin hefur fengið ógilda seðla úr þrem kjördæmum til athugunar, og er þar greinilega merkt við einn frambjóðandann, án þess að það sé reglulegur kross. Einn seðill er þannig, að merkt er við tvo frambjóðendur, og því tvímælalaust ógildur, enda ekki krossaður, heldur eru önnur merki við nöfnin. Ég get um þetta, þó að ekki hafi það áhrif á kosninguna. Hún er tvímælalaus. En það mun vera mjög misjafnt í einstökum kjördæmum, hvað kjörstjórnir eru strangar um ógildingu seðla, ef vilji kjósandans kemur sýnilega fram. Ég veit t.d., að í mínu kjördæmi er það þannig, að seðill er gerður ógildur, ef ekki er reglulegur kross. Í öðrum kjördæmum mun það vera þannig, að ef eitthvert merki er við listabókstaf eða nafn, er seðillinn tekinn gildur. Mér skilst, að hér þurfi nokkurrar samræmingar við.