25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Einar Olgeirsson:

Ég hef engu að bæta við það, sem hefur verið sagt hér áður, en langar að bera fram þá fyrirspurn til fjmrh. út af 3. gr., þar sem segir, að taka skuli á fjárlög fyrir 1950 fjárveitingu til endurgreiðslu lánanna, hvort hann skilji þessa grein þannig, að með samþykkt þessara brbl. hér í þinginu væri þar með raunverulega bundið í l., hvað standa skuli á fjárl., sem þetta þing á að semja fyrir næsta ár. Það mætti kannske skilja þetta þannig, að ráðh. bæri að taka þetta upp á fjárlfrv., en ég býst þó ekki við, að það sé meiningin. Vegna þess, að ég á sæti í þeirri n., sem ég býst við, að frv. þetta fari til, langar mig til að fá þetta fram alveg skýrt, hvort Alþ. með því að samþ. þessi brbl. er búið að binda þessa fjárupphæð á viðkomandi fjárlög.