25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Finnur Jónsson:

Ég hef lýst fylgi mínu við þetta frv., eins og það liggur fyrir, og þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. gerði í því sambandi. Ég skil, að það muni að vissu leyti ekki vera alveg eins þröngt fyrir dyrum eftir síldarvertíð þessa árs eins og ársins 1948, m.a. af því, að nokkur skip öfluðu sæmilega, og enn fremur vegna þess, að sum skipin fóru á reknet í Faxaflóa og réttu sig af á því. Hitt er mér þó kunnugt, að það er enn þá mjög mikið ógreitt af sjóveðskröfum frá s.l. sumri, og kemur mér nokkuð á óvart, ef ríkisstj. hefur ekki fengið nein fyrirmæli um að reyna að leysa fram úr því. Vera má, að ekki hafi verið gerðar enn þá mjög háværar kröfur um þetta, af því að menn geri ráð fyrir því, að í framhaldi af því, sem gerðist með brbl., verði gerðar sams konar ráðstafanir, þegar síldveiðunum er lokið. Enn fremur er mér kunnugt um það, að svonefnd skilanefnd starfar, þó að dregizt hafi lengi fyrir henni að leysa það verk af hendi, sem henni var falið. Ég tel, að ástandið sé að ýmsu leyti, þó ef til vill í smærri stíl en 1948, mjög svipað, einkum hvað snertir allmikið af sjóveðskröfum, og er óhjákvæmilegt, að ríkisstj. semji við lánsstofnanir um, að þessar kröfur verði leystar út upp á væntanlega ráðstöfun Alþ.