10.01.1950
Efri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Forseti (BSt):

Hæstv. ráðh. hefur nú skýrt hina undarlegu fyrirsögn á frv., sem var eðlileg á sínum tíma, en ég undrast, að þetta skyldi vera samþ. svo í hv. Nd., en frv. var samþ. þar í gær, en slíku orðalagi á bráðabirgðalögum er venjulega breytt, og nú á það ekki lengur við.

Gísli Jónsson: Herra forseti. Mér virðist, að fram hafi komið nokkur misskilningur á ræðu minni hjá hæstv. ráðh. Mér er vel kunnugt um, að frv. er staðfesting á bráðabirgðalögum, og í öðru lagi gagnrýndi ég ekki frv., því að mér var ljóst, að samkomulag var um að gera þetta og einnig full þörf á því, og orð mín gáfu ekki tilefni til að halda slíku fram. Það eina, sem ég benti á, var það, að nauðsyn væri að fá upplýst, hve miklu þessi upphæð næmi, áður en frv. væri samþ. hér, og að nauðsyn væri að koma þessu inn í fjárl. fyrir 1950. Nú segir hæstv. ráðh., að ekki sé hægt að vita fyrr en 31. jan., hve miklu þetta nemur, en mér þykir líklegt, að Landsbankinn fari nærri um slíkt nú 10. janúar. Að öðru leyti sé ég ekki, hvernig hægt er að taka þetta inn á fjárl., ef þau eru samþ. fyrir nýár eins og vera ber, þegar ekki er vitað um — þetta 10. janúar. Mér skilst, að engin ákveðin upphæð sé ætluð í þessu skyni á fjárl. fyrir þetta ár, og óska upplýsinga um þetta og hve mikla upphæð þarf til að uppfylla fyrirmæli 3. gr. Þetta finnst mér eðlileg spurning frá manni, sem er í fjvn., og þurfi ekki að fyrta neinn, því að sé þetta allt ógreitt, um 21/2 millj. kr., og Landsbankinn heimtar, að það sé greitt á árinu, þá er það augljóst, að þetta verður að koma á fjárl., en þá er komið að því atriði, sem ég gat áðan um, að á móti þessu yrði að afla tekna, svo að ekki raskist sá greiðslujöfnuður, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., og þá ekki aðeins á móti þessu, heldur einnig útgjöldum þeim, er ákveðin voru með þál. eftir að fjárl. komu fram.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði áðan, að orð mín má ekki skoða sem gagnrýni á hæstv. fyrrv. ríkisstj. eða þá, sem aðstoðaðir hafa verið hér, sjávarútveginn, heldur er það eðlileg afleiðing af því, sem gert hefur verið, að taka þurfi upphæð inn á fjárl. til að standa gegn þessu, en þá þurfa að liggja fyrir upplýsingar um, hve há upphæð þetta er, og eins vona ég, að hæstv. ríkisstj. upplýsi, hvort nauðsyn hafi verið að verja svo miklu til að leysa sjóveð og eins hvort afli hafi verið notaður til annars, en að leysa sjóveð.