10.01.1950
Efri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að tala hér frekar, en hæstv. ráðh. gaf tilefni til slíks. Ég greip fram í og gat þess, að það væri ekki venja hæstv. ríkisstj. að hafa svo mikið við að hafa framsögu hér í d. Hæstv. ráðh. þótti óviðkunnanlegt að leggjast þannig á náinn, en það hafa stundum verið til afturgöngur, og hér er slíkt auðséð, þar sem sami maður sem var fjmrh. og sjútvmrh. í hæstv. fyrrv. stjórn situr nú hér sem sjútvmrh., en sú venja er nú komin á, að hafi ríkisstj. haft framsögu í einhverju máli í annarri deild þingsins, þá telur hún það nægilegt og hefur enga í hinni deildinni, en ég vil mótmæla þessari aðferð og óska eindregið eftir að hún verði lögð niður.

Það er einkennilegur hugsanaferill að setja það inn í frv., sem er samið í ágúst, að upphæð sú, sem ógreidd sé í endaðan janúar, skuli sett inn í fjárl. það ár. Auðvitað átti að áætla upphæð og setja í fjárl. á löglegum tíma, ef ekki er þá gert ráð fyrir, að þau verði ekki samþ. á löglegum tíma. En hæstv. ráðh. sér enga ástæðu til að áætla neitt um þetta, og þó að nú sé bráðum kominn miður janúar, sér hann enga ástæðu til að benda Alþ. á, hve miklu þetta muni nema, og er það því ekki til fyrirmyndar, hvernig frv. þetta er lagt fyrir þingið.

Ég vil svo benda á það, að hæstv. ríkisstj. á að hafa framsögu fyrir málum, sem hún leggur hér fyrir d., þó að búið sé að halda framsögu í hv. Nd., og vona ég, að sá háttur verði tekinn upp í framtíðinni.