10.01.1950
Efri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Því miður var það svo, að hv. 1. þm. N–M. kunni ekki að meta fyrrv. ríkisstj. í lifanda lífi, þó að hann ætti að heita stuðningsmaður hennar, og niðrar henni fyrir að vera svo óforsjál að sjá, að fjárl. mundu ekki verða sett fyrir janúarlok, en hún var vitrari, en hv. þm. hélt, og 12. ágúst var þessum málum svo háttað, að jafnvel óvitrir menn gátu séð, að fjárl. mundu ekki verða afgreidd fyrir áramót, því að þá sömu daga var ákveðið, að þing skyldi rofið, og var þá augljóst, að kosningar mundu fara fram í október, og þar með sýnt, að fjárl. yrðu ekki afgreidd fyrir áramót og ekki fyrr en á fyrri hluta árs 1950. Orsök og afleiðing eru því augljós, og hygg ég, að hv. 1. þm. N-M. viðurkenni þetta, þegar honum er bent á það, því að hann er sannsýnn maður, þó að hann fari dult með það stundum. Það var því eðlilegt, að ríkisstj. miðaði við þennan tíma, og var hann því settur inn í frv., þar eð ekki var hægt fyrr, en að honum liðnum að gera ákveðnar till um þetta inn á fjárl. Ég verð að játa það, að mér er þetta mál ekki kunnugt í einstökum atriðum, t.d. hve mikið fé það er, sem hefur verið lánað, og eins hve mikið fé hefur verið endurgreitt, en ég hygg, að árið 1948 hafi verið lánað minna, en ráðgert var. En ég teldi eðlilegt, og það ætti að vera í lófa lagið, að nefndin fengi til hlítar upplýsingar, sem að þessu lúta. Ég held líka, að ef þetta verður ekki greitt nú, þá séu litlar líkur til, að það verði greitt fyrir 31. janúar.

Það er ekki nema eðlilegt, að deildin óski eftir þessum gögnum, hitt tel ég rangt, að á saka fyrrv. ríkisstj. fyrir það, að hún hafi ekki tekið þetta inn á fjárlög. Þetta frv. er sett af fjmrh., en þar hefur verið skipt um mann, eins og hv. þm. N-M. veit. Ef allt hefði verið með felldu, hefði verið eðlilegt, að sjútvmrh. hefði verið hér viðstaddur, en nú stendur svo á, að til umræðu er í Nd. mál, sem verður að teljast þýðingarmeira en þetta og hann er mjög viðriðinn. Verður það að teljast næg afsökun fyrir fjarveru hans hér, að hann er bundinn við þær umræður sem flytjandi frv. Hitt tek ég undir að er rétt, að ríkisstj. geri grein fyrir frv., sem hún flytur, í báðum deildum, og hef ég fyrir mitt leyti reynt að fylgja þeirri reglu um þau frv., sem ég hef annazt. Hitt getur alltaf borið að höndum, að menn séu forfallaðir, en yfirleitt er þetta ástundað, enda er það eitt boðlegt.