19.01.1950
Efri deild: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Forseti. Það kom fram í ræðu hv. 1. þm. Eyf. áðan, að fyrirspurn hefði borizt stjórnarráðinu út af þessu máli. — Svo var málum komið um miðjan ágúst s.l., að tíðarfar var gott og ekki var talið vonlaust um, að eitthvað kynni að geta veiðzt af síld, þó að þetta væri orðið áliðið síldveiðitímans. En svo var komið fyrir útvegsmönnum þeim, sem gerðu út báta sína til síldveiða, á afliðnu sumri, að þeir áttu erfitt eða alls ómögulegt með að standa í skilum með launagreiðslur til starfsmanna sinna, sjómanna. Sú hætta var einnig yfirvofandi af þeim sökum, að hásetar færu af skipunum. Þessi vitneskja barst mér frá formanni síldarverksmiðja ríkisins og fleiri aðilum. Mér var það þegar ljóst, að sjómennirnir, sem höfðu fengið litla peninga í hlut sökum aflaleysis á vertíðinni, mundu telja vænlegast að hverfa af skipunum við svo búið. Er hér var komið sögu, var töluverð eftirspurn eftir landverkafólki og auglýst eftir því hér syðra. Ég tók því þetta mál til athugunar og lagði það fyrir ríkisstj. Viðbragð ríkisstj. var svo það, að reynt skyldi að koma í veg fyrir, að flótti yrði frá síldveiðunum að svo komnu máli. Síðan var það ákveðið, að bankarnir veittu bráðabirgðalán til útvegsmanna, svo að þeir gætu gefið fólki sínu úrlausn og greitt því kaup sitt. Að þessum ráðstöfunum loknum héldu síldveiðiskipin áfram hlutverki sínu á miðunum fyrir Norðurlandi. Bráðabirgðalög voru svo gefin út um þetta. Ég held, að það megi telja það víst, að hefði ekki verið brugðið svo skjótt við, þá hefðu veiðarnar stöðvazt um 10. ágúst. Eftir þetta kom talsverður afli á land.

Nú hefur verið að því spurt, hvar bátar þeir, sem aðstoðar nutu, hafi lagt upp afla sinn. Ég veit nú ekki um sölurnar, en ég geri ráð fyrir, að mestur hluti hans hafi farið í verksmiðjur ríkisins eða aðrar síldarverksmiðjur, eins og vant er. Það er og vitað mál og kunnara en frá þurfi að segja, að bátarnir þurfa að standa undir fleiru, en greiðslum til starfsmanna sinna. Ráðuneytið krafðist ekki neinna skuldbindinga um það, hvar aflinn væri seldur. Hins vegar var gert ráð fyrir því, að bankarnir tryggðu endurgreiðslu á láni því, sem þeir veittu. Ég tók þetta ekki upp í fjárlagafrv. vegna þess, að ekki var vitað, hvað upphæðin yrði stór. Það verður að hafa í huga, að á gefnu augnabliki mun hæstv. fjmrh. leggja fyrir hv. fjvn. brtt. um að taka í fjárlagafrv. sérstaka upphæð í þessu skyni. Hitt væri svo allt önnur aðferð, að ríkisstj. tæki sérstakt lán, en hvort tveggja var ótímabært, þegar fjárlagafrv. var undirbúið.

Ég sé, að fjhn. hefur flutt brtt. við orðalag 1. gr. frv. Álít ég þá breyt. vera til bóta. Ég vil og þakka n. fyrir það, að hún vill standa undir tilraunum fyrrv. ríkisstj. á síðustu, síldarvertíð. Hins vegar eru hinar till. á þskj. 242 nokkuð annars eðlis. Þar er sagt, að bréf hafi borizt frá eigendum Hafdísar, en ég hafði ekki fallizt á, að slík ábyrgð væri leyfð. Þótt orðið hafi að hlaupa undir bagga í neyðartilfellum, þá hefur ekki þótt fært að fara út í slíka starfsemi. Vissulega er mikið færzt í fang að gera út á Grænlandsmið. Ég var einn af þeim, sem hafði áhuga á því, að möguleikar væru athugaðir til slíkrar útgerðar, en enginn þeirra manna, sem síðar fóru af stað, báru sig saman við Útveg h.f., félagið, sem var stofnað í þessum tilgangi og gerði út til Grænlands í tilraunaskyni. Einstaklingar þeir, sem gerðu út til veiða við Grænland, höfðu engin samráð um það við sjútvmrn. Hins vegar hefði slíkt verið æskilegt, en ef um styrk til slíkra hluta ætti að vera að ræða, yrði slíkt að vera afráðið fyrir fram, að mínum dómi. Að öðrum kosti gætu dæmin orðið svo mörg. Menn kæmu þá í ráðuneytið og segðu: Ég fór í útgerð og tapaði, og þið verðið að bjarga mér frá skuldunum með því, að ríkið taki ábyrgð á láni, til þess að ég geti greitt fjárhagslegar skuldbindingar mínar. Dæmin gætu orðið nokkuð mörg, ef út í þetta yrði farið, en annars er það ekki mitt að segja hér síðasta orðið í þessu sambandi, heldur hæstv. fjmrh., sem er hér ekki viðstaddur nú.

Ég vildi gefa þessar upplýsingar um þetta nú, en ég get því miður ekki setið lengur undir þessum umræðum nú, því að ég hef verið kvaddur til þess að sitja annan fund, sem er rétt að byrja.