23.01.1950
Efri deild: 40. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Mér finnst nú, að þessi síðasta aths. hv. þm. Barð. staðfesti það, sem ég sagði, að hér liggja engar upplýsingar fyrir um neina aðra upphæð, en þessar rúmlega 1.200 þús. kr., sem útistandandi eru. Önnur upphæð hefur ekki verið nefnd. Að n. geti frekar sótt þær upplýsingar til ráðh. en flokksbróðir hans, hv. þm. Barð. og form. fjvn., því hef ég litla trú á og vildi helzt, að hv. 1. þm. N-M. beindi spurningum sínum um þetta atriði til viðkomandi ráðh. Ég tel ekki von, að n. geti skaffað svo ábyggilegar upplýsingar um það. En eins og ég sagði, liggur ekkert fyrir skjalfest um það, að til meiri ábyrgðar hafi verið tekið en rúmlega 1.200 þús. kr., og þar af leiðandi virðist mér í fljótu bragði, að ekki þurfi að hækka ábyrgðarheimildina, ef brtt. fjhn. verður samþykkt.