17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Hv. þm. V-Húnv. beindi umkvörtun og fyrirspurn til mín eða hæstv. fjmrh. um það, að fjárlagaræðan hefur enn ekki verið haldin. Það er siður, að frv. til fjárl. sé ekki vísað til fjvn. fyrr en að henni lokinni. Það er eðlileg ástæða til þess. Ég var búinn að leggja frv. til fjárl. fyrir þingið, áður en stjórnarskiptin urðu. Sá, sem tók við embætti fjmrh., óskaði þess sjálfur að fá að setja sig inn í málið og halda fjárlagaræðuna, og var ekki nema eðlilegt, að til þess þyrfti tíma, og meiri tíma en ef sá, sem gekk frá frv., hefði átt að inna það af hendi. Það er eðlilegt að sá, sem tekur við starfi fjmrh., haldi fjárlagaræðuna og afhendi frv. í hendur fjvn., en ekki maður, sem er hættur í embættinu. En hvað viðvíkur vinnubrögðum hjá fjvn., vil ég ekki viðurkenna það, sem hv. þm. sagði, að fjvn. sé bægt frá að starfa að frv., þar til því hefur verið formlega vísað til hennar. Það er ekki nema hártogun, vegna þess að frv. sjálft fær enga breyt. við það, að fjárlagaræðan er haldin. Fjvn. hefur nú haft frv. með höndum þessar þrjár vikur og hefur auðvitað unnið að undirbúningi þess á ýmsum sviðum, svo sem með því að rannsaka ýmis plögg og því um líkt, sem tilheyrir undirbúningi frv., og þarf því ekki að verða dráttur á málinu af hendi fjvn., þó að ekki sé búið að vísa frv. formlega til hennar.

Þá er síðari fyrirspurnin, hvers vegna ríkisreikningurinn fyrir árið 1946 hafi ekki enn verið lagður fram. Ég geri ráð fyrir, að ástæðan sé sú, að ekki sé búið að ganga frá svörum og því um líku við aths. endurskoðendanna, en ég geri ekki ráð fyrir, að það þurfi að dragast lengi úr þessu, að þessi reikningur verði fram lagður, en eins og komið hefur í ljós á undanförnum þingum, þegar rætt hefur verið um það, hvað ríkisreikningurinn kæmi seint fram, þá er það ekki á fjmrh. eins valdi að hraða þeim vinnubrögðum, því að það er ekki aðeins um að ræða þá administrativu endurskoðun í stjórnarráðinu, heldur einnig yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins og þá, sem þeim þurfa að svara.

Þegar hv. þm. þarf næst að spyrjast hér fyrir, þá vil ég benda honum á, að það er augljóst, að hæstv. fjmrh. er ekki staddur hér, en ég skal fúslega svara því, sem snertir afskipti mín af fjárlfrv. í fjarveru hæstv. fjmrh., þó að ég vilji annars ekki grípa inn í hans verkahring. Mér virðist málinu vera þannig háttað, að það sé óþarfa aðfinnsla við hæstv. fjmrh., þó að hann sé ekki kominn enn með fjárlagaræðuna fyrir þingið, eins og í hendur hans er búið, þ. e. a. s. að hann tekur við frv., sem aðrir hafa samið, og verður þess vegna að setja sig sjálfur inn í hina ýmsu þætti þess, og er því eðlilegt, að hann þurfi til þess meiri tíma, en þeir hefðu þurft, sem sáu um samningu frv. Annars veit ég til þess, að hæstv. fjmrh. er svo að segja búinn með þann undirbúning, sem hann þarf að gera, og geri ég ráð fyrir, að það verði snemma í næstu viku, sem hv. þm. getur hlustað á hann halda sína fjárlagaræðu, — en að það tefji fyrir störfum fjvn., er ekki nema formleg aðfinnsla, en ekki raunveruleg.