13.02.1950
Efri deild: 54. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

115. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1950

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að bjóða hæstv. fjmrh. velkominn í d., því að það er sannarlega óvanalegt að sjá ráðherra hér í d. Hæstv. ríkisstj. hefur yfirleitt ekki haft fyrir því að mæla með frv. sínum hér, og þegar þetta frv. var lagt fram, töluðu fyrir því stólarnir einir. Ég óskaði þá eftir að fá að vita hjá hæstv. ríkisstj., hvernig hún hugsaði sér að afgreiða fjárlög fyrir áramót, ef Alþingi yrði ekki kvatt saman fyrr en 10. okt., en stólarnir þögðu, og ég fékk ekkert svar. Nú er hæstv. fjmrh. kominn, svo að hann svarar mér væntanlega, en ég vil í fyrsta lagi spyrja hann: Er hann ánægður með það, að fjárlög séu ekki samþykkt fyrr en á miðju því ári, sem þau eiga að gilda fyrir? Ef svo er, þá get ég vel skilið, að hann vilji láta Alþingi koma saman þann 10. okt. og hafa mikinn hluta ársins fjárlagalausan. En ef svo er ekki, þá mundi hann vilja, að þingið kæmi saman fyrr, og ætti þá að geta fallizt á þá brtt., sem ég mun flytja hér, þess efnis, að samkomudagurinn verði ákveðinn 1. sept. í stað 10. okt. Hv. n. bendir á, að það sé óþolandi og skömm fyrir Alþingi að hafa sama hátt á þessum málum og verið hefur undanfarið, en hún hefur þó ekki fundið neina ástæðu til þess að benda á nýjar leiðir til úrbóta, en þær eru raunar fleiri en flytja fram samkomudaginn, t.d. mætti breyta reikningsárinu, láta Alþingi koma saman t.d. rétt eftir áramót og hafa fjárlögin frá 31. maí til 1. júní, því að frá áramótum til 1. júní er góður tími til að koma saman fjárlögum. Þar með væri úr núverandi ófremdarástandi bætt, og þetta er hægt núna með því að hafa fjárlögin til 1. júní, annaðhvort fyrir hálft ár eða hálft annað ár. Þetta ófremdarástand komst á, þegar byrjað var á haustþingunum, en þau eru aldrei hafin svo snemma, að hægt sé að koma saman fjárlögum fyrir áramót. Því vil ég gera það að till. minni, að samkomudagurinn verði færður til 1. sept., því að með því er veittur nægilegur tími til afgreiðslu fjárlaganna á tilsettum tíma. Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta brtt. mína og bið hann að leita afbrigða fyrir henni.