23.11.1949
Efri deild: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

21. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þegar að því leið, að atkvæðagreiðsla utan kjörstaðar væri hafin, kom í ljós, að heimildin fyrir henni erlendis var þrengri nú en áður, því að þá var opin ræðismannsskrifstofan í New York, þar sem hægt var að kjósa, en í sumar var búið að loka henni, og var því hvergi hægt fyrir Íslendinga í Bandaríkjunum að kjósa nema í Washington, en fáir þeirra gátu notað sér það. Ekki þótti rétt að þrengja svo möguleikana á utankjörstaðarkosningunni, og lá þá fyrir að athuga, hvernig hægt væri að koma fyrir til frambúðar samsvarandi heimild og verið hafði. Til greina kom, að atkvæðagreiðslan gæti farið fram hjá öllum ræðismönnum Íslands, en það þótti ekki fært, þar sem mikill hluti þeirra skilur ekki íslenzka tungu og getur því ekki séð svo vel um kosninguna sem skyldi. Því var valin sú leið, að ef ræðismaðurinn er íslenzkur eða talar íslenzka tungu, þá mætti kjósa hjá honum, og þótti þá séð fyrir því, að menn bæði í Ameríku og Evrópu gætu kosið, þótt þeir næðu ekki til íslenzku sendiráðanna. Um þetta var enginn ágreiningur innan ríkisstj., og voru því sett þau brbl., sem hér liggja fyrir. Það vandamál, sem lá til grundvallar því, að þessi brbl. voru sett, getur legið fyrir til úrlausnar aftur og aftur, og er því eðlilegt, að Alþingi taki það til athugunar og afgreiðslu. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.