03.05.1950
Sameinað þing: 43. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

(Ólafur Thors) :

Herra forseti. Ég sé hér í einu mjög virðulegu dagblaði, Alþýðublaðinu, að hv. þm. Ísaf. hefur veitzt að mér á þingfundi í gær fyrir að vera aldrei staddur á fundum í þinginu og beint fyrirspurn til hæstv. forseta, sem hann sagði, að beina hefði átt til sjútvmrh., en þar sem ekki væri sýnilegt, að sjútvmrh. gegndi embætti sínu, þá beindi hann henni til forseta. Ég er nú venjulega ekkert sérstaklega hörundssár maður, en mér finnast þessi ummæli ekki sanngjörn. Hv. þm. Ísaf. hefur síðan sagt, að þessi ummæli séu ekki alveg rétt eftir sér höfð, og trúi ég honum betur í þessu efni en blaðinu, en hv. þm. hefur sagt, að hann hafi látið þau orð falla, að ég sæist ekki á þingfundum, en þessum málum er svo háttað, að ráðh. er ekki skyldur til að mæta á fundum í þinginu fram yfir það, sem hann sjálfur kýs. Í öðru lagi vil ég taka það fram út af því, sem hann minntist á stofnlánadeildina, þá hef ég fjallað mikið um það mál og fór utan þeirra erinda, og var sú för með fullri blessun hv. þm. Ísaf., og held ég, að hann sem áhugamaður á þessu sviði hafi kunnað því betur, að sú för var farin, og mun ég bráðum láta frá mér fara skýrslu um förina og árangur hennar. Vil ég halda því fram, að sú för hafi verið árangursríkari og gagnlegri heldur en ef ég hefði setið hér á meira eða minna gagnslitlum umræðufundum. Ég hef rætt þessi mál við skrifstofustjóra ráðuneytisins og hef í hyggju að ræða á næstunni við skilanefndina. Ég tel því, að ég hafi unnið vel að þessum málum og eigi ekki skilið, að verið sé að hnýta í mig út af vanrækslu á þeim. Þá hefur núv. ríkisstj. haldið fundi um þessi mál. Ég tel, að ég ræki betur starf mitt með því að vera á skrifstofu minni og ræða við menn varðandi þessi mál, heldur en að sitja hér á fundum. Ég veit, að hv. þm. Ísaf. veit þetta og skilur, og ég veit, að honum er kunnugt frá þeim tíma, sem við störfuðum saman, að ég reyni eftir fremsta megni að sinna störfum þeim, sem mér er trúað fyrir. Ég hefði ekkert verið hissa, þó að slíkar aðdróttanir hefðu komið frá hv. þm. Ísaf. hér fyrr á árum, áður en við fórum að starfa saman, en ég undrast og hryggist yfir, að þetta skuli koma frá honum nú. — Ég skal svo fullvissa hv. þm. Ísaf., að ég hef fullan vilja á að draga fram hlut sjómanna eftir beztu getu, ekki sízt nú, þegar þeir hafa orðið fyrir svo miklum vonbrigðum vegna lækkunar á fiskverði, sem stafar þó ekki af gengislækkuninni, heldur af verðfalli á erlendum markaði.